150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ferðagjöf. Í frumvarpinu er kveðið á um heimild stjórnvalda til útgáfu ferðagjafar sem er stafræn inneign að andvirði 5.000 kr. til einstaklinga 18 ára og eldri sem hafa íslenska kennitölu. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um skilyrði fyrir notkun ferðagjafar, gildistíma hennar og afmörkun þeirra sem geta tekið við greiðslu með ferðagjöfinni. Með vísan til þess að um er að ræða einskiptisaðgerð stjórnvalda sem svipar til tækifærisgjafa er lagt til að ferðagjöfin verði undanþegin ákvæðum laga um tekjuskatt.

Við höfum fátt gert annað undanfarna mánuði en að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Eins og allir í þessum sal þekkja hefur faraldurinn haft gríðarlega afdrifarík áhrif á efnahagskerfið hér á landi sem og annars staðar en ferðaþjónusta hefur á undanförnum árum orðið undirstöðuatvinnuvegur og lykilstærð í íslensku hagkerfi. Vegna víðtækra ferðatakmarkana um heim allan, m.a. innan Evrópu og Norður-Ameríku, sem eru helstu markaðssvæði Íslands á vettvangi ferðaþjónustu, hafa flugsamgöngur til landsins nánast legið alfarið niðri auk þess sem samkomubann hefur að verulegu leyti komið í veg fyrir möguleika fyrirtækja til að þjónusta þá fáu sem hér hafa verið. Faraldurinn hefur því komið sérlega illa við ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi en það segir líklega allt sem segja þarf að farþegum í apríl sl. fækkaði um 99,3% á milli ára.

Með útgáfu ferðagjafar eru einstaklingar hvattir til að ferðast innan lands í sumar þeirra. Gjöfin er kynnt til leiks í þeirri von að landsmenn nýti frekar innviði ferðaþjónustunnar en ella hefði orðið og bæti atvinnugreininni í einhverjum mæli fyrirsjáanlegan samdrátt á árinu. Þannig veitir aðgerðin efnahagslífinu og þá einkum ferðaþjónustunni viðspyrnu. Aðgerðin styður auk þess við framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 um að greinin verði leiðandi í sjálfbærri þróun, einkum hvað varðar áhersluþættina arðsemi og ávinning heimamanna.

Virðulegi forseti. Verði frumvarpið að lögum verður stjórnvöldum heimiluð útgáfa stafrænnar ferðagjafar að fjárhæð 5.000 kr. til einstaklinga sem eru fæddir á árinu 2002 eða fyrr og hafa íslenska kennitölu. Áætlað er að þetta eigi við u.þ.b. 250.000 einstaklinga. Gildistími ferðagjafarinnar er frá útgáfudegi til og með 30. desember 2020 og getur heildarkostnaður aðgerðarinnar numið allt að 1,5 milljörðum kr. Til að tryggja að ferðagjöfin nýtist sem best ferðaþjónustunni í landinu til hagsbóta er lagt til að einstaklingur geti gefið eigin ferðagjöf áfram sem og að einstaklingur geti greitt með allt að 15 ferðagjöfum.

Í frumvarpinu er kveðið á um afmörkun þeirra fyrirtækja sem heimilt er að taka við greiðslu með ferðagjöf en eins og ég kom inn á er aðgerðin fyrst og fremst hugsuð til að veita fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar viðspyrnu. Við afmörkun er einkum stuðst við hlutlæga mælikvarða, þ.e. opinberar leyfisveitingar og fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar sem hafa starfsstöð á Íslandi. Í fyrsta lagi er um að ræða fyrirtæki sem hafa gilt leyfi Ferðamálastofu sem ferðaskrifstofur eða ferðasalar dagsferða. Í öðru lagi fyrirtæki í veitinga- og gistiþjónustu með gilt rekstrarleyfi á grundvelli laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í þriðja lagi er um að ræða ökutækjaleigur með gilt starfsleyfi frá Samgöngustofu og í fjórða og síðasta lagi er um að ræða söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningu þar sem áhersla er lögð á íslenska menningu, sögu eða náttúru.

Í frumvarpinu er kveðið á um að hugtakið fyrirtæki sé notað yfir þá aðila sem geta tekið við ferðagjöf fyrir veitta þjónustu. Hugtakið ber að skýra á sama hátt og gert er í skilningi samkeppnisréttar, þ.e. það getur verið einstaklingur, félag, opinber aðili eða aðrir sem stunda atvinnurekstur. Er skilgreining þessi óháð félaga- eða rekstrarformi.

Virðulegur forseti. Ferðagjöfin verður útfærð í formi smáforrits í farsíma sem verður hægt að nota á einfaldan hátt til greiðslu. Fyrir einstaklinga sem nota ekki snjallsíma eða kjósa að hlaða ekki niður smáforritinu verður boðið upp á notkun greiðslukóða gegnum internetið. Þá býður smáforritið upp á einfalda lausn við millifærslu ferðagjafar, gefanda og móttakanda að kostnaðarlausu. Verkefnahópur í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Yay ehf. hefur unnið að útfærslu gjafabréfsins en í honum sitja fulltrúar atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, fjármálaráðuneytis, verkefnastofu um Stafrænt Ísland, Ferðamálastofu og Samtaka ferðaþjónustunnar. Miðstöð verkefnisins verður vefsvæðið ferðalag.is sem hýsir jafnframt hvatningarátak um ferðalög innan lands sem Ferðamálastofa annast.

Stefnt er að því að ferðagjöfin verði tilbúin til afhendingar snemma í júní. Þau fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar sem uppfylla skilyrði fyrir þátttöku geta skráð sig til þátttöku á vefsvæðinu island.is og geta þá samhliða kynnt mótframlag sitt eða tilboð sem stendur handhöfum ferðagjafarinnar til boða. Ég vonast til þess að fyrirtæki sjái sér hag í því að laða til sín ferðamenn með þessum hætti.

Ferðagjöfin felur í sér ríkisaðstoð í ljósi þess að notkun hennar er afmörkuð við tiltekna atvinnustarfsemi hér á landi. Frumvarpið var unnið í samræmi við ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins en af því leiðir að hverju fyrirtæki er að hámarki heimilt að taka við samanlagt 100 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa. Rétt er að geta þess að aðgerðin nær til nokkur þúsund fyrirtækja innan ferðaþjónustunnar svo ólíklegt er að eitt fyrirtæki nái umræddum hámarksþröskuldi. Hvað sem því líður gerir tækniúrlausnin ráð fyrir hámarkinu og mun stöðva greiðslur þegar fyrirtæki nær umræddu hámarki.

Virðulegur forseti. Markmiðið með frumvarpi þessu er að hvetja einstaklinga til að ferðast um landið og verja ferðagjöfinni í ferðaþjónustu innan lands og veita á sama tíma efnahagslífinu og þá einkum ferðaþjónustu viðspyrnu í þeirri miklu niðursveiflu sem fylgt hefur heimsfaraldri kórónuveirunnar. Verði frumvarpið að lögum getur einstaklingur sem náð hefur 18 ára aldri greitt með ferðagjöfinni hjá fyrirtækjum innan íslenskrar ferðaþjónustu sem skráð eru á vefsvæðinu ferðalag.is. Það fyrirkomulag verður nánar kynnt í fyrramálið á kynningarfundi sem streymt verður á vef Ferðamálastofu.

Frumvarpið kallar ekki á breytingar á öðrum lögum og hefur verið unnið í góðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, verkefnastofu um Stafrænt Ísland, Ferðamálastofu og Samtök ferðaþjónustunnar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.