150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um ferðagjöf, stafræna gjöf upp á 5.000 kr. Mér er eiginlega orða vant og ég vil bara fá svar við því hvernig í ósköpunum ráðherra sér það fyrir sér að þessar 5.000 kr. dugi til ferðalaga um Ísland fyrir einstaklinga og öryrkja og eldri borgara, sem eru með rétt um 200.000 kr. útborgaðar? Ég myndi skilja það ef það væri fimmtánfalt, ef það væru 75.000 kr. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er verið að láta þetta fara upp allan tekjustigann? Væri ekki nær að hafa þetta veglegra þannig að þeir sem síst geta ferðast um landið fengju gjöfina og myndu þar af leiðandi geta átt a.m.k. möguleika á því eitt sumarið að ferðast um landið?