150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög áhugavert frumvarp og ég fagna því að við skulum hafa fengið það til umræðu. Ég ætla ekki endilega að taka þátt í því að ræða hversu lág fjárhæðin sem slík er og hvað hægt er að gera við hana, miklu frekar finnst mér þetta vera áhugaverð tilraun, almenn aðgerð eins og ráðherra kom svo vel inn á, til þess að ýta undir neyslu fólks. Við þurfum að gera allt núna til að halda fyrirtækjunum gangandi og halda þannig á málum að við getum ýtt fyrirtækjunum áfram þannig að þau haldist vonandi sem flest á lífi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Ég kem að seinni fyrirspurninni á eftir. Það er verið að ræða um söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningar gegn endurgjaldi. Erum við þá líka að tala um að hægt væri að nota ferðagjöfina í tónleika? Við vitum að sviðslistafólk og tónleikahaldarar hafa orðið fyrir miklu tekjufalli á þessum tímum. (Forseti hringir.) Mun ferðaávísunin ná til slíkra menningartengdra uppákoma sem eiga sér stað innan safna (Forseti hringir.) eða innan þeirrar starfsemi sem gildir um fyrirtæki, veitingastaði, gististaði og skemmtanahald?