150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé eitthvað sem við munum einfaldlega skoða í nefnd, reyna að hafa túlkunina sem víðasta. Þetta eru einstæðir tímar núna og ekki síst á landsbyggðinni er hægt að tengja viðburði saman.

En að öðru og kannski mun stærra: Við á þingi, alla vega ekki minni hlutinn, höfum ekki fengið neinar sviðsmyndir, eiginlega ekki um neitt, ekki í einu einasta máli, ekki í þessu heldur. Mig langar að fá að vita hvort ráðherra og ríkisstjórnin hafi á einhverju tímabili, af því að þetta er varfærið skref, lagt það niður fyrir sér að gera þetta að mun stærri og meiri aðgerð og almennari aðgerð. Menn hafa verið að nefna jafnvel 50.000 eða 100.000 kall á mann til að halda innanlandsneyslu uppi í sumar af því að sumarið og fram á haust er lykiltími fyrir okkur til að halda atvinnulífinu gangandi. Eru til einhverjar sviðsmyndir þar sem ríkisstjórnin mat áhrif þess að fara í stórtækari aðgerðir sem hefðu bein áhrif, merkjanleg áhrif, á atvinnulífið á þessum tíma?