150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:29]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hægt að reyna að greina í sviðsmyndum mismunandi áhrif eftir því sem upphæðin hækkar. En það er spurning hvaða forsendur menn geta gefið sér, til að mynda þegar kemur að því að skapa störf tímabundið o.s.frv. Auðvitað er hægt að reikna það út að það hefði meiri efnahagsleg áhrif ef fjárhæðin væri töluvert miklu hærri, en þetta var ákvörðun sem var tekin, með 5.000 kr., og mér fannst skipta meira máli að vinna það hratt og örugglega, vanda til verka þannig að þetta væri einfalt og skilvirkt, bæði fyrir notendur, þ.e. fólk sem nýtir sér inneignina, en líka fyrir fyrirtækin sem skrá sig til leiks. Það eru miklir möguleikar með appinu eða smáforritinu til að tengja við annars konar gjafabréf, til að mynda ef vinnustaður vill gefa starfsfólki 10.000 kr. sumargjöf, þá er hægt að setja það inn á smáforritið og það bætist þá við. (Forseti hringir.) Mér fannst skipta meira máli að koma þessu frá mér og koma þessu út í byrjun júní þannig að við gætum farið af stað heldur en að skoða það sérstaklega hvort upphæðin ætti að vera miklu hærri.