150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Forseti. Mér finnst þetta hið áhugaverðasta mál. Þegar ég las það fyrst hugsaði ég það sama og mörg önnur; 5.000 kr. eru engin ægileg upphæð, og hefur aðeins verið kvartað yfir því í andsvörum. En ég las málið í heild og fór að velta þessu aðeins fyrir mér og ég er ekki frá því að ég styðji málið. Ég ætla að sjá til hvort mér endist þessi ræða til að sannfæra mig um hið gagnstæða.

Það er mjög margt í þessum aðstæðum, þó fyrr hefði verið, sem við gætum rætt í sambandi við aðgerðir og aðferðir eins og þessar og þá ekki síst í tengslum við gjaldeyrismál. Gjaldeyrismál ber ekki mjög oft á góma hér, kannski vegna þess að eftir að Brexit-bröltið hófst hefur öll orðræða í kringum Evrópusambandið, eða hugsanlega aðild Íslands að því, breyst eða orðið að engu. Jafnvel hörðustu stuðningsmenn þeirrar aðildar virðast í hljóði hafa komið sér saman um að bíða með þær predikanir þar til Brexit-bröltinu lýkur, hvenær svo sem það verður.

Þannig vill til að Píratar eru með frekar gamla stefnu sem mér datt reyndar í hug um daginn að fara að endurvekja og hún fjallar um að gera svokallaða hliðargjaldmiðla mögulega. Nú átta ég mig á því að þetta frumvarp felur ekki í sér útgáfu hliðargjaldmiðils. Þetta eru íslenskar krónur, fjármagnaðar með íslenskum krónum, af ríkissjóði nánar tiltekið. En þetta vekur svipaðar spurningar og þegar litið er yfir tilgang frumvarpsins og þeirrar staðreyndar að þetta er vissulega ríkisaðstoð, ekki bara í skilningi EES heldur í öllum skilningi, er hollt að velta upp nokkrum spurningum um gjaldmiðla og hvernig þeir virka og hvernig þeir virka ekki.

Hér áður fyrr var þeim sem hér stendur tamt að halda nokkrar ræður um það hvað gjaldeyrismál og efnahagsmál eru óæskilega lítið í hugum fólks almennt nema þegar kemur að einhverjum mjög djúpstæðum, persónulegum aðstæðum eins og t.d. við yfirvofandi gjaldþrot, að fólk sé að fara að missa heimili sitt eða eitthvað því um líkt. Þá skyndilega öðlast það allnokkra sérþekkingu á fyrirbærum eins og verðtryggingu eða vöxtum, föstum vöxtum, breytilegum vöxtum og guð má vita hverju. Að mínu mati, eftir hrunið 2008, þá er það það sem við þurfum á Íslandi að almenningur, íslenskur almenningur, Íslendingar almennt og fólk sem býr hér, verði að ákveðnum sérfræðingum í fjármálum. Það er há krafa, virðulegi forseti. Ég er ekki að biðja um lítið. Fjármál þykja flókin, þau þykja jafnvel leiðinleg og þurr. Mig langar til að stinga upp á því að svo sé ekki.

Það má spyrja hvað gerist ef við gefum út nýjan gjaldmiðil, annan gjaldmiðil en íslensku krónuna samhliða, svokallaðan hliðargjaldmiðil, sem er hannaður til að ná tilteknu markmiði. Hvað gerist þá? Hvað þá, virðulegi forseti? Ég held að sú spurning sé efni í mjög viðamikla og áhugaverða umræðu vegna þess að í frumvarpinu koma slík markmið fram. Markmiðið hér er að efla eftirspurn eftir innlendri þjónustu, sér í lagi á sviði ferðaþjónustu, afþreyingar að einhverju leyti, veitingaiðnaðar og þess háttar, eins og kemur fram í frumvarpinu. Það sem meira er er að þessar ferðagjafir, eins og þær eru kallaðar, renna út í lok ársins. Fólk verður að eyða þeim á þessu ári til að ferðagjöfin haldi gildi. Samt eru þetta bara íslenskar krónur.

Virðulegi forseti. Ef við leggjum íslenska krónu inn á bankareikning þá er hún þar, að öllu jöfnu alla vega. Við getum haft hana verðtryggða, við getum haft hana óverðtryggða. Við getum bundið hana eða haft hana óbundna með vöxtum o.s.frv. En íslenskar krónur hafa að jafnaði ekki það einkenni að hverfa, að hætta að vera til í lok ársins. En vel á minnst, peningar geta alveg horfið. Það var stundum sagt hér eftir hrun, ranglega, að peningar gufi ekki upp, en það er bara rangt, virðulegi forseti, þeir gera það víst, þeir gera það við ýmis tilefni. Þegar lán eru greidd upp eða þegar hlutabréf lækka í verði er hægt að segja að peningar séu að eyðast, að þeir séu að hætta að vera til. Það ætti ekki að koma neinum á óvart vegna þess að peningar eru ekki í eðli sínu einhver föst verðmæti sem við getum flutt frá einum stað yfir á annan. Þegar allt kemur til alls eru peningar einfaldlega tölur sem við erum búin að byggja kerfi, réttarkerfi, skattkerfi, hagkerfi, í kringum. Við viðurkennum þessar tölur, sem eru ekkert nema venjulegar tölur eins og við skrifum niður á blöð, í skiptum fyrir þjónustu og vörur. Af því leiðir að yfirvöld hafa tækifæri til að gefa út slíkar tölur, þær þurfa ekki að heita íslenskar krónur en í okkar tilfelli almennt heita þær nákvæmlega það.

Íslensk yfirvöld geta gefið út hluti eins og ferðagjafir eða einhvers konar form af hliðargjaldmiðli, ýmist fjármagnaðan með íslenskri krónu eða ekki, og látið þann hliðargjaldmiðil eða ferðagjöf, eða hvað sem við köllum það, þjóna ákveðnu tilteknu markmiði.

Þessi umræða hefur aldrei komist af neinni alvöru á flug í íslenskum stjórnmálum. Ég held að hluti af ástæðunni sé að þegar við ræðum fjármál eða hagkerfið í víðum skilningi festumst við mjög auðveldlega í hlutum eins og verðtryggingu eða vöxtum, þessari klassísku hagfræði sem ég geri ekki lítið úr. Hún er mikilvæg og mætti vera meira af því að fólk temji sér að reyna að skilja fyrirbærin áður en það hneykslast á þeim. Ég hef engar áhyggjur af því, myndi ég segja, að fólk hneykslist á þeim eftir að það skilur þau. Það er engum tækifærum glatað við það. En það veltir upp þeirri spurningu hvort ekki megi nýta svona úrræði meira. Það vekur einnig spurninguna: Hvað ef upphæðirnar væru hærri? Ég vil ekki gera lítið úr þessari upphæð vegna þess að ég held að þetta skipti alveg máli. Ég held að það muni alveg um það að hafa aðgang að 5.000 kr., ókeypis peningum, ef svo mætti að orði komast, í vasann gegn því að fara að nota þá einhvers staðar í einhverjum iðnaði eða þjónustu sem við viljum efla sérstaklega í ljósi þessara dæmalausu aðstæðna. Ég held að það hafi alveg áhrif og jákvæð áhrif í heildina. En það myndi líka vekja spurningar um hvernig þetta yrði fjármagnað. Það eru stærri spurningar en ég kemst í á þeim tæpu 8 mínútum sem eftir eru af þessari ræðu. Ég læt duga að segja: Þar er nóg að ræða um.

Það hvernig peningar verða til og hvernig þeir hætta að vera til í hagkerfinu er áhugaverð spurning sem við spyrjum ekki nógu oft. Fólk sem hefur sérþekkingu á efninu lætur oft eins og sú spurning sé rosalega augljós og svörin séu augljóslega rétt eins og þau eru í dag; það hvernig peningar verða til t.d. í bankakerfinu Þegar fólk kemst að því hvernig peningar verða til og hvernig peningakerfið virkar lítur það yfirleitt á það sem einhvers konar samsæriskenningu, þar til það kemst að því að þetta er ekki samsæriskenning, bara kallað peningakerfið. Út frá öllum slíkum vangaveltum ættum við að leita leiða og lausna, ekki bara innan hefðbundinnar efnahagskenningar heldur líka út fyrir þann ramma.

Hið áhugaverða við tímann, virðulegi forseti, er að hann breytir hlutunum. Sú var tíðin að það þótti galið að takmarka vinnuframlag fólks við 7–8 tíma á dag, þótti bara ekki geta staðist. Viti menn, það stóðst. Það þótti galið á sínum tíma að bjóða upp á atvinnuleysisbætur, eða hvað þá almannatryggingar, en svo er ekki lengur vegna þess að hagkerfið okkar er ekki meitlað í stein. Það er vissulega háð ákveðnum náttúrulögmálum en það er ekki meitlað í stein. Þegar ég rífst við vinstri sinnaðri félaga mína sem vilja meina að við ráðum þessu alveg líki ég þessu stundum við hús. Þú getur byggt hús eins og þú vilt en við erum samt háð ákveðnum eðlisfræðilögmálum sem við verðum að taka tillit til. Að þeim gefnum og ef við skiljum þau nógu vel getum við gert alls konar magnaða hluti eins og almannatryggingar, atvinnuleysisbætur o.fl.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki út í borgaralaunaumræðunni hér og nú, það er ekki tími til þess. En mér finnst það alveg við hæfi vegna þess að þetta mál er algjörlega skylt því og mætti í raun líta á það sem eins konar míkróútgáfu af einhvers konar borgaralaunum þótt ég sé viss um að nokkrir kollegar mínir hér, sem hafa betri þekkingu en ég, geti mótmælt því og er það guðvelkomið. Það eru samt ákveðin lykiltakmörk fyrir því hversu mikið við gætum notað þetta úrræði. Jafnvel þó að við kæmumst hér að þeirri niðurstöðu að þetta væri frábært mál og við vildum hafa upphæðina tíu sinnum hærri, hafa þetta t.d. 50.000 kall á haus í staðinn fyrir 5.000 kall, myndi vandinn koma upp sem hæstv. ráðherra nefndi reyndar í þessu samhengi og það eru takmarkanirnar sem við búum við vegna EES-samstarfsins, mikilvægasta alþjóðlega samstarfs sem við tökum þátt í, hygg ég, alla vega á sviði efnahagsmála, og geri ekki lítið úr því. Það samstarf gengur út frá því að þau hagkerfi sem eru búin að tengja sig saman ætli að gera hlutina á nokkurn veginn sama hátt, á svipaðan hátt í það minnsta. Þau vilja hafa sambærilegar reglur þannig að fjárfestir eða jafnvel bara vinnumanneskja, sem starfar við hvað eina, geti flutt sig á milli hagkerfa og vitað í öllum meginatriðum, og helst í öllum smáatriðum, að hverju sé gengið. Þetta er göfugt og gott markmið sem ég styð. En hefur þann galla að við þurfum þá að sætta okkur við alls konar takmarkanir sem gera okkur ekki kleift að gera tilraunir sem við ættum annars kannski að gera. Það vekur strax spurninguna um það hvort við ættum ekki að beita okkur meira á þeim vettvangi að útvíkka tilraunir og setja einhverjar klausur í einhvers konar EES-viðauka sem myndu gera okkur kleift að gera frekari tilraunir á sviðum sem þessum, á sviði hliðargjaldmiðla og ríkisaðstoðar, þó með einhverjum takmörkunum. Ég vil þó ekki mála of bjarta mynd af þessu, forseti, því það eru ákveðnir grundvallargallar við að prófa nýjar hugmyndir. Við höfum ekki endilega mikla reynslu af hliðarafleiðingum þess að prófa hluti sem jafnan gerast ekki.

Það er tvennt í frumvarpinu sem mig langar að benda á, og hér er möguleiki á því að ég sannfæri sjálfan mig hugsanlega að vera ekki hlynntur þessu frumvarpi. Það er annars vegar það að tæknilegar útfærslur á því hvernig fjármagn flyst á milli fólks í dag fela líka í sér hluti eins og rekjanleika og alls konar persónuverndaráhyggjur umfram bókstaf laganna — og ég get ekki ítrekað það nógu mikið að það eitt að eitthvað standist persónuverndarlöggjöf er í sjálfu sér ekki nóg. Það er ekki markmið í persónuvernd að fylgja lögunum. Það er markmið laganna að fylgja persónuvernd. Það markmið næst aldrei ef gildin á bak við ákvarðanir okkar eru ekki nógu sterk. Við getum leyft okkur alls konar hluti og fundið alls konar réttlætingar fyrir þeim sem hafa samt þau hliðaráhrif að ríkisvaldið eða aðrir valdamiklir aðilar í samfélaginu eru skyndilega farnir að hafa meiri völd en við ætluðum nokkurn tímann að gefa þeim. Það er eitt af því sem ég hefði áhyggjur af við að útvíkka frumvörp sem þessi meira, þ.e. á þeim tæknilegu forsendum sem hér eru gefnar. Ég hef líka áhyggjur af því hvaða skilyrði yfirvöld myndu setja fyrir nýtingu fjármagnsins eins og er í þessu tilfelli.

Virðulegi forseti. Við lifum við fordæmalausar aðstæður eins og er. Það er alveg við hæfi að prófa nýja hluti. Það er alveg við hæfi að gera hluti núna sem væri kannski ekki alltaf við hæfi að gera. Það hefði ekki verið við hæfi árið 2013 að setja þessi lög, vil ég meina. Það hefði verið skrýtið með hliðsjón af því að við viljum þó hafa hér samkeppnisrekstur og við viljum að önnur fyrirtæki standi í sanngjarnri samkeppni, eða ég vil það alla vega. En í frumvarpinu felast óhjákvæmilega skilyrði þar sem yfirvöld eru búin að segja: Hér er peningur sem þú mátt bara nota svona og svona. Það er ekki svo þröngt skilgreint í þessu frumvarpi sem er gott. Það er mjög gott hvað þetta er vítt miðað við allt, en þetta er til staðar. Við myndum aldrei gefa út íslenskar krónur með þessum formerkjum. Við myndum aldrei leyfa fólki að kaupa evru eða dollara með þeim formerkjum að það mætti bara kaupa húsnæði eða bara kaupa bíl. Við myndum alla vega ekki gera það og vera sátt við það. Við myndum hugsanlega gera það í neyðarástandi. Þegar kom að gjaldeyrishöftum eða fjármagnshöftum á sínum tíma settum við höft á borgarana út af neyðarástandi og það er, held ég, hættan við að beita svona úrræðum í meiri mæli. Það er hætta sem ég hygg að við getum alveg tekist á við með einhverri umræðu. Og sérstaklega held ég að það sé hætta sem hægt er að bregðast við með málefnalegum hætti ef við förum út í frekari tilraunir eins og þessar út frá einhverjum fyrirframgefnum markmiðum. Sem dæmi að styrkja sérstaklega ákveðinn landshluta eða eitthvað því um líkt eða að efla sérstaklega menntun eða eitthvað slíkt. Það eru ýmis markmið sem við gætum gefið okkur sem væru í sjálfu sér ekki á skjön við samkeppnissjónarmiðin og hinn, svona í meginatriðum, frjálsa efnahag sem við viljum væntanlega flest hafa. Þetta eru hins vegar spurningar sem hafa ekki almennt náð langt í pólitískri umræðu, hvorki á Íslandi né annars staðar, að mér vitandi.

Ég hygg að nú, þegar við förum inn í framtíðina á ógnarhraða, verði tilefnið æ meira til að spyrja þessara spurninga og velta þeim fyrir sér. Nú hafði ég í huga að ljúka ræðu minni með stuttum pistli um loftslagsbreytingar en ég verð að láta hann bíða annars tíma sökum tímaskorts. Að öðru leyti, virðulegur forseti, hefur mér mistekist að sannfæra sjálfan mig um að vera á móti þessu máli og er því enn hlynntur því.