150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mér líst bara ljómandi vel á þetta frumvarp. Þar sem þetta er gefið út rafrænt og kerfið eltir það hvernig menn nota þetta þá verðum við að skoða það í nefndinni. Hæstv. ráðherra svaraði því áðan í andsvari, en það verður skoðað í nefndinni hvort ekki sé alveg öruggt að friðhelgi einkalífs fólks sé tryggð og svo gegnsæi varðandi fyrirtæki sem nýta sér almannafé með þessum hætti. En mér líst ljómandi vel á frumvarpið. Ráðherra fær að útdeila 1,5 milljörðum sem fólk getur síðan notað til að ferðast, til að skemmta sér, til að gera vel við sig, til að fara á öldurhús, og allt þetta skiptir náttúrlega máli. Ég held að þetta sé pólitískt mjög gott fyrir ráðherra. Ég er líka hlynntur því að þessi leið sé þannig að það sé markaðurinn sem ræður. Mér finnst sú útfærsla mjög góð. Það mætti alveg færa aldursmörkin niður þannig að ef fólk sem er með börn ætlar að fara að ferðast þá nýtist þetta betur hjá því. En það er markaðurinn sem ræður, fólkið ræður sjálft hvað það vill styðja við. Það er gott. Það er líka gott að ráðherra gaf svolítið upp boltann með það að þau fyrirtæki sem ætla að nýta sér þetta gætu einmitt reynt að trekkja inn á þetta með því að vera með aukatilboð eða slíkt í gangi. Ég skildi ekki nákvæmlega útfærsluna en það verður áhugavert að ræða það í nefndinni hvernig hægt er að reyna að láta þetta vinda svolítið upp á sig, verða að snjóbolta sem hleðst utan á.

Varðandi það sem við ráðherra ræddum í andsvari rétt áðan, um peninga sem ekki hafa verið endurgreiddir vegna pakkaferða, þá er það allt í gangi núna. Það eru endurgreiðslur vegna pakkaferða þannig að þeir peningar eru að skila sér. Á meðan það frumvarp situr fast, eins og ég nefndi áðan, þá hef ég lagt fram breytingartillögur við það þannig að endurgreiðslurnar fara út strax og ferðaskrifstofur geta nálgast það tryggingarfé sem þær hafa, það er bara strax komið út. Ég hélt að það myndi gerast fyrr, sér í lagi vegna þess að ef ég skildi það rétt við meðferð málsins í nefndinni þá halda sum kortafyrirtækin svolítið að sér höndum til að sjá hvernig þetta fer varðandi pakkaferðafrumvarpið. Ráðherra er náttúrlega bara með boltann þar. Atvinnuveganefnd er með mína breytingartillögu en ég vona að það fari að leysast sem fyrst þannig að öll óvissa með þá þætti hverfi. Fólk veit að það fær endurgreitt og getur þar af leiðandi farið að fjárfesta í ferðum innan lands.

En förum aðeins yfir frumvarpið. Það kemur einmitt hér fram að ferðagjöfin er stafræn 5.000 kr. inneign útgefin af stjórnvöldum til einstaklinga 18 ára og eldri með íslenska kennitölu. Ég nefndi áðan að það gæti verið gott að færa aldursmörkin niður þannig að stærri fjölskyldur með börn sjái meiri hag í því að nýta inneignarnótuna. Um er að ræða 5.000 kr. og það þýðir að þetta er flöt upphæð, kemur frá skattgreiðendum. Við erum með prógressíft skattkerfi og þetta er tekið inn þannig og svo er því skilað út regressíft sem þýðir að því er skilað út í krónutölum. Þá verður jafnari dreifing á verðmætum, á skattfé, ákveðin jöfnun hvað það varðar. Nálgun Pírata þegar kemur að skattheimtu er mjög skýr þannig að þeir sem hafa meira á milli handanna eiga hlutfallslega að standa undir meiru af samneyslunni. Það er gott.

Hér er talað um að fyrirtæki með gilt leyfi Ferðamálastofu, samkvæmt III. kafla laga um Ferðamálastofu, geti nýtt sér þetta.

Í línunni þar fyrir ofan segir:

„Einstaklingur getur notað ferðagjöf til greiðslu hjá fyrirtækjum sem uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum og hafa starfsstöð á Íslandi.“

Gott að festa starfsstöðina, vera alveg viss um það. En síðan eru það þessi skilyrði. Það er talað um gilt ferðaleyfi Ferðamálastofu; með gilt rekstrarleyfi samkvæmt 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þegar ég las þetta hugsaði ég með mér: Gæti ég sem sagt farið á Vitabar og fengið mér steik og bjór? 5.000 kr. myndu duga og vel það. Ég myndi líklega geta fengið mér þrjá bjóra og steik, franskar og sósu. Þannig að þessi 5.000 kall kemur sér ansi vel ef maður fer á réttu staðina. Svo er talað um gild starfsleyfi frá viðeigandi heilbrigðisnefnd sem hefur verið gefið út vegna veitingastaða í flokki I. Ég er ekki búinn að skoða nákvæmlega yfir hverja þetta nær. Og áfram er talað um ökutækjaleigur með gilt starfsleyfi frá Samgöngustofu samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja. Svo eru það söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru.

Einstaklingi er heimilt að gefa eigin ferðagjöf þannig að fólk getur safnað þeim upp. Einstaklingur getur að hámarki greitt með 15 ferðagjöfum. Hvað erum við þá komin upp í mikið? Það eru 75.000 kr., það er alveg örugglega hægt að skemmta sér vel fyrir það. Gildistími ferðagjafa er frá og með deginum þegar frumvarpið verður að lögum, sem ég býst við að verði mjög fljótlega, til og með 31. desember 2020. Mitt hlutverk í atvinnuveganefnd, þar sem ég sit fyrir Pírata, verður þá bara að passa upp á að gætt sé að friðhelgi einkalífs og gegnsæi varðandi nýtingu. Ég sé í fljótu bragði ekkert annað sem ég myndi setja mig upp á móti, hef ekki málefnalegar ástæður til að gera neitt frekar með það. Ég sé því ekki annað, alla vega ekki að mínu leyti, en að frumvarpið eigi eftir að fara hratt og vel í gegn. En við fylgjumst auðvitað með þeim athugasemdum sem koma inn. Ég fékk eina athugasemd senda í tölvupósti frá einhverjum aðila sem leigir út GPS-tæki. Hann hefur sérhæft sig í að leigja út einhvern slíkan búnað. Hæstv. ráðherra hefur sagt það sjálf, ef ég skildi hana rétt, að fókusinn sé á að reyna að gera þetta hratt og skilvirkt, það verði árangursríkt og einfalt til að þessir peningar fari að skila sér til ferðaþjónustunnar. En það má svolítið skoða það, ég veit ekki alveg að hve miklu leyti það er. Við munum fara yfir það í nefndinni hvort til séu leiðir til að ná á einfaldan hátt að setja aðeins meiri fókus á ferðaþjónustuna og þá aðila sem annars myndu ekki geta nýtt sér þessa ferðaávísun.

Í 2. gr. er talað um að ferðagjöf sé undanþegin skattskyldu samkvæmt 4. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Það þarf að skoða nákvæmlega hvað það þýðir. Það er oft þannig að þegar öryrkjar eða eldri borgarar fá einhverjar gjafir eða eitthvað svoleiðis þá enda þeir á því að þurfa að borga skatt af því árið eftir. Þú fékkst of mikið, vinurinn, eða vinan! Nú verður þetta bara dregið af bótunum þínum! Við verðum að passa upp á að slíkir annmarkar séu ekki á þessari gjöf.

Svo er það 3. gr.:

„Hvert fyrirtæki getur að hámarki tekið við samanlagt 100 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa.

Fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 getur að hámarki tekið við samanlagt 25 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa.“

Ég þarf bara að skilja nákvæmlega hver raunveruleikinn er í stöðunni. Ég er ekki andstæður því að einhvers konar fyrirkomulag sé innbyggt á málefnalegum forsendum þar sem peningarnir nýtast betur, þar sem þeir eru líklegir til að styrkja þau fyrirtæki sem eru líkleg til þess að lifa þetta af og vera minni hvati til þess að peningar fari í fyrirtæki sem hvort eð er eru líkleg til að fara í þrot. Ég er hlynntur einhverju slíku fyrirkomulagi. Hvort þetta fyrirkomulag sé akkúrat rétta fyrirkomulagið, eða hve vel það nær tilgangi sínum, ef þetta er í raun tilgangurinn, veit ég ekki en ég mun skoða það. Og ég er hlynntur þeirri grunnreglu að þegar verið er að nota skattfé til að styðja við ferðamannaiðnaðinn á Íslandi sé einhver málefnaleg nálgun þannig að þeir peningar skili sér í fyrirtæki sem munu lifa af en ekki þar sem þeir munu hvort eð er fara til spillis. Það væri ekki góð notkun á skattfé.

Í 4. gr. er talað um að Ferðamálastofa hafi eftirlit með framkvæmd þessara laga. Flott. Það er mjög gott. Það er oft verið að troða ráðherra inn sem býður upp á alls konar geðþótta og ég er hrifinn af því að fagstofnanir séu með þetta eftirlit. Í 5. gr. er talað um að lög þessi öðlist gildi nú þegar. Svo kemur greinargerðin, þetta er stutt frumvarp. Þegar hæstv. ráðherra fór yfir þetta held ég að hún hafi bara lesið það allt.

Mér líst vel á frumvarpið. Það þarf að passa upp á friðhelgi og það þarf að passa upp á gegnsæi og skoða þarf hvort þessi gjöf hafi neikvæðar afleiðingar varðandi þá sem þiggja bætur frá hinu opinbera, að þeir lendi ekki í því að þurfa að endurgreiða á forsendum sem ég nefndi. Það þarf að passa upp á að þetta nái raunverulega þeim tilgangi sínum að styrkja ferðaþjónustuna, hvort við getum gert einhvers konar viðbætur eða breytingar í atvinnuveganefnd til að tryggja að fjármagnið skili sér sem best til ferðaþjónustunnar í stað þess að fara í aðra þætti.