150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta eru að sjálfsögðu mjög góðar ábendingar. Vangaveltur hv. þingmanns eiga fullkomlega rétt á sér og áhyggjur hans hvað það varðar. Ég skal taka heils hugar undir það. Það sem ég átti við með tæknilegu útfærslunni var einfaldlega að það er tiltölulega einfalt að nota þetta gjafabréf, greiða fyrir þjónustu með gjafabréfi. Það er nokkuð sem verður að vera í góðu lagi þegar menn fara af stað með svona lagað, að það sé einfalt í framkvæmd. En vissulega fela snjallsímaforrit það í sér að það er fylgst nokkuð vel með manni, hvað maður gerir og hvar maður er staddur o.s.frv. og það hefur fylgt þessari þróun á mörgum sviðum. Það er að sjálfsögðu ákveðið áhyggjuefni. Kærum við okkur um að menn geti vitað hvar við erum á ferðinni og hvar við greiðum fyrir eitthvað og hvaða þjónustu við kaupum? Ég er ekki viss um að allir kæri sig um það.

En ég er ekki mikil tæknimaður á þessu sviði, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson er margfalt betri en ég í þeim efnum. Hann gæti eflaust fundið einhverjar leiðir eða komið með tillögur að einhverjum leiðum til þess að reyna að koma í veg fyrir að fylgst sé með okkur, ef svo má að orði komast, þegar við notum snjallsímaforrit með þessum hætti. Hann gæti komið með þær tillögur hér og jafnvel leiðbeint ríkisstjórninni í þeim efnum. Ég er hins vegar ekki viss um að hún hafi nokkurn áhuga á að hlusta á það miðað við reynslu okkar af því, varðandi þær tillögur sem við höfum lagt fram um veirufaraldur og mótvægisaðgerðir í þeim efnum.