150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta er áhugavert mál og sjálfsagt að það verði rætt innan nefndarinnar. Kemur þetta til með að hafa ákveðin áhrif? Er hugsanlegt að þetta muni letja fólk til að nýta gjafabréfið? Maður veit aldrei, kannski einhverja. En einfaldleikinn er mikilvægur í þessu efni. Þá verður manni hugsað til þeirra sem eru eldri og eru ekki alveg eins mikið í snjallsímaforritum og snjallsímum og öllu því sem unga fólkið er í í dag. Hvernig mun þetta nýtast þeim hópi, að sækja gjafabréfið o.s.frv.? Hefði verið skynsamlegra, t.d. hvað eldri borgarana varðar, að færa þeim ákveðna upphæð, þessar 5.000 kr., í formi innlagnar á bankareikning eða eitthvað því um líkt til að nýta það, til að örva hagkerfið í verslun og þjónustu og öðru slíku? Það er líka sjónarmið þannig að það er margt að skoða hvað þetta varðar. Ég legg áherslu á að nefndin fari yfir það sem hv. þingmaður hefur nefnt hér og eru réttmætar áhyggjur.