150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta var áhugavert andsvar og það gleður mig að fá að geta komið hingað og tjáð mig um þetta vegna þess að ég stóð í sömu sporum og hv. þingmaður þegar ég settist fyrst á þing í október 2017. Þá flutti ég breytingartillögu við fjárlög um aukin framlög til Suðurnesja vegna þess að á Suðurnesjum hafa lögbundnar stofnanir hins opinbera ekki fengið sömu fjárveitingar og sambærilegar stofnanir á landsbyggðinni. Ég var svo sannfærður um að þetta myndi njóta stuðnings og sérstaklega hjá þingmönnum Suðurkjördæmis, hvar í flokki sem þeir stóðu. En það fór nú svo að sú tillaga var felld. Ég varð fyrir gífurlegum vonbrigðum og varð mjög hissa og þurfti svolítinn tíma til að jafna mig á þessu. Ég gerði það að lokum og áttaði mig síðan á því hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig, þannig að hv. þingmaður á hér bandamann hvað þetta varðar.

Auðvitað á að hlusta á góðar tillögur, sama hvaðan þær koma. Og ég mun svo sannarlega beita mér fyrir því, fái ég aðstöðu til þess einhvern tímann í stjórnmálum, að hlusta á tillögur minni hluta, fara yfir þær og styðja ef svo ber undir og ef þær eru góðar og snúa að því sem málefnið lýtur að hverju sinni. Það er enginn vafi í mínum huga. Það er ákveðin hefð, eigum við ekki að kalla þetta kúltúr, hér í þinginu að afgreiða tillögur minni hlutans á þennan veg. Ég minni á að í aðgerðum í veirufaraldrinum óskaði ríkisstjórnin eftir tillögum frá minni hlutanum og þá hefði maður haldið að hún myndi kannski hlusta á þær. Var það þá allt sýndarmennska? Það hlýtur bara að vera.