150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp, þó lítið sé, er alveg troðfullt af gríðarlega áhugaverðu efni, bæði nýstárlegu efni þar sem eru mjög áhugaverð atriði til að ræða og álitamál sem þarf að skoða betur. Eins og var talað um hérna er frumvarpið aðallega til þess að koma ferðaþjónustunni af stað á þessu ári. Þetta er ríkisstuðningur til ferðaþjónustufyrirtækja með þeim takmörkunum sem því fylgja. Það tengist kannski orðsendingu sem var talað um fyrr í umræðunni um hvers konar framlög þetta eru. Það sem er kannski áhugavert er að það væri hægt að gera þetta aðeins ótakmarkaðra, t.d. að þetta væri bara hluti af útgreiddum persónuafslætti, hann hefði verið hækkaður einn mánuðinn. Því hefði vissulega ekki verið beint að ferðaþjónustunni en mögulega hefði verið hægt að vinna það á annan hátt.

Ég spurði hæstv. ráðherra í andsvörum hvort þetta væri í rauninni útgáfa á stafrænum gjaldmiðli. Hæstv. ráðherra sagði svo ekki vera en þetta er ansi nálægt því. Það er áhugavert með tilliti til þróunar í Bitcoin-málum og þess háttar og af því að maður hefur heyrt um áform um útgáfu á stafrænum gjaldmiðli. Þetta er kannski smátilraun inn í þann pakka allan. Það er hægt að líta á þetta sem ákveðna útgreiðslu, sumir hafa talað um hvort þetta væri svipað og borgaralaun. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist á það. Ég verð að vera pínulítið ósammála en ég held að hann hafi meint það á þeim stað. En það væri hægt að hugsa um þessa útgreiðslu sem ákveðna greiðslu af t.d. arði af auðlindum sem er svipað og gert er í Alaska af olíuauðlindum. Þar er bara ein greiðsla á ári, gjörið svo vel, hérna er tékki sem þið getið notað í hvað sem er. Ferðagjöfin er með takmörkunum þannig að það er ekki alveg sambærilegt.

Það eru nokkur atriði sem ég rek augun í þegar ég les frumvarpið. Strax í 1. gr. kemur fram að þetta er inneign útgefin af stjórnvöldum til einstaklinga 18 ára eða eldri með íslenska kennitölu. Nú velti ég fyrir mér hvort það væri ekki eðlilegt að taka tillit til fjölskyldna í þessu og þá einnig til barna þar sem þau eru jú hluti af þeim kostnaði sem þarf að standa undir við notkun á þessum stuðningi til ferðalaga. Þar var nefnt í umræðunni hér áður þegar talað var um þessa hugmynd að mögulega gætu ferðaþjónustufyrirtæki komið með tilboð fyrir börnin, þ.e. eitthvað frítt á móti notkun á ferðagjöfinni. Það gæti verið ágætislausn, en ekkert endilega sjálfsögð lausn, það væri í höndum fyrirtækjanna að útfæra það og standa við það. Ég held að fólk ætti einnig að huga að börnum hvað þetta frumvarp sérstaklega varðar.

Stærsta málið sem ég myndi vilja tala um varðandi þetta frumvarp er persónuvernd. Eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Birgi Þórarinsson þá er, eins og hæstv. ráðherra sagði, ekki verið að safna persónuupplýsingum. En það verða til persónuupplýsingar með þessu. Þetta er ákveðin hringrás þar sem hið opinbera býr til gjafabréf fyrir alla, sem viðkomandi ná í með hjálp snjallsímaforrits sem hefur aðgang að gríðarlega miklum upplýsingum til að byrja með. Það getur verið varhugavert. Hins vegar eru það tengsl við hvert gjafabréf fyrir sig og notkun þess og umsjón hjá fyrirtækinu sem innleysir gjafabréfið hjá hinu opinbera. Þar myndast ákveðinn hringur um það hver notar hvaða gjafabréf og í hvaða tilgangi. Það er hægt að safna ýmiss konar upplýsingum, ekkert endilega frá einstaka persónum heldur um tekjur, t.d. í hvað notar fólk í fyrstu tekjutíund eða annarri tekjutíund ferðagjöfina? Framselur það ferðagjöfina, notar það hana aðallega í mat eða þess háttar? Það geta verið ýmsar áhugaverðar upplýsingar sem getur verið freistandi að seilast í. En það er ekkert fjallað um það í frumvarpinu hvernig á að meðhöndla slíka upplýsingasöfnun. Eins og ég segi þá er þetta ekki beint upplýsingasöfnun heldur upplýsingar sem verða einfaldlega til. Mér finnst vanta ákvæði sem fjallar um þennan vinkil málsins og nefndin fjallar kannski um það.

Ég gerði einnig athugasemdir í andsvörum við ráðherra um 3. gr. þar sem er gerður greinarmunur á fyrirtækjum. Í 1. gr. eru skilyrðin talin upp, það eru fyrirtæki með gilt leyfi Ferðamálastofu samkvæmt III. kafla laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018, og önnur leyfi frá Samgöngustofu, heilbrigðisnefnd o.s.frv. Í 3. gr. segir að fyrirtæki sem var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019, en ekki 1. janúar eða 1. nóvember eða eitthvað því um líkt, geti einungis fengið 25 milljónir samanlagt af þessari ferðagjöf á meðan önnur fyrirtæki geta fengið 100 milljónir. Það er væntanlega ólíklegt að þau nái upp í það, miðað við að það eru bara 1,5 milljarðar til að dreifa. En það er áhugavert að sjá hvernig það skiptist á milli t.d. eignarhaldsfyrirtækja. Ef það er fyrirtæki sem á mörg dótturfyrirtæki sem eru öll í ferðaþjónustu, skiptir þá máli hvert dótturfyrirtæki eða tengdir aðilar líka inni í þessu eða ekki? Er ákveðinn aðstöðumunur eða mismunun á milli fyrirtækja sem eru í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 og þeirra sem voru ekki í rekstrarerfiðleikum akkúrat þá? Þetta býr til mismunun. Til hvers að gera þennan greinarmun á milli þessara fyrirtækja?

Í 2. gr. er fjallað um að ferðagjöfin sé undanþegin skattskyldu þar sem þetta sé ákveðin tækifærisgjöf og sá sem fær gjöfina þarf ekki að standa skil af sköttum af henni. Hins vegar þarf væntanlega að skila virðisaukaskatti af því sem er síðan keypt. Þegar allt kemur til alls er um 1.200 kr. sem skilar sér í virðisaukaskatti sem lækkar upphæðina sem er búin til með tilliti til kostnaðar af sköttum. Upphæðin er 5.000 kr. fyrir hvern neytanda en fyrir ríkissjóð er það aðeins minna, það er rúmur 1,1 milljarður sem kemur í heildarkostnað þegar allt kemur til alls.

Á sama tíma og ég spyr um muninn á þeim fyrirtækjum sem eru í rekstrarerfiðleikum og þeim sem eru það ekki, þá spyr ég um ný fyrirtæki. Eru einhver önnur skilyrði hvað þau varðar? Ef fólk vill grípa tækifærið vegna þessarar ferðagjafar, búa til fyrirtæki sem tekur sérstaklega við ferðagjöfum á einhvern hátt, er það eðlilegt ef þetta er til að vinna til baka einhvers konar uppbyggingu eða er það bara í fínu lagi? Það væri væntanlega einfaldara fyrir fyrirtæki sem var í rekstrarerfiðleikum að leggja bara upp laupana og stofna kannski nýtt fyrirtæki og hafa þá aðgang að 100 milljónum ef það tækifæri lægi við. Lendir það fyrirtæki undir í því lagafrumvarpi sem er búið að leggja fram um kennitöluflakk? Ég veit það ekki. Kannski er tímaspursmálið þar ekki nægilega gott, þ.e. það tæki of langan tíma til að klára gjaldþrotaferli eldra fyrirtækisins en nýja fyrirtækið væri komið í gang, kennitöluflakkið myndi ekki hafa áhrif áður en það væri búið að nýta ráðgjöfina. Það eru merkilega mörg atriði sem við þurfum að huga að hvað þetta varðar.

Ég spurði hæstv. ráðherra í andsvörum áðan um tengslin við hlutabótaleiðina hvað gagnsæi varðar í þessu frumvarpi. Það er hámark á því hversu mikinn hluta hvert fyrirtæki getur fengið af þessari ferðagjöf, sérstaklega fyrirtæki í rekstrarerfiðleikum. Þá ætti að vera tiltölulega sjálfsagt að birta hversu mikið af ferðagjöfum hvert fyrirtæki fékk, bara upp á ákveðið eftirlit. Maður hefur heyrt með hlutabótaleiðina að það eru ýmis fyrirtæki á þeim lista sem hefur verið birtur þar sem fólk klórar sér dálítið í hausnum yfir og spyr: Er þetta fyrirtæki þarna í alvörunni? Í hvernig erfiðleikum lenti það? Golfklúbbar t.d., er ekki rosalega mikið bil á milli manna á golfvöllum? Eiga þeir ekki að geta haldið ákveðinni fjarlægð og haldið áfram að spila golf? Ég veit ekki hvernig það var. Ég held að á þessum tíma árs hafi kannski ekki verið mikið spilað golf. Af hverju voru golfklúbbar þá í vandræðum á nákvæmlega þessum tíma? Væntanlega breyttist ekkert mikið í rekstri þeirra. Það var einhver stálsmiðja á listanum, ég veit ekki hvort hún var að selja mikið af stáli til túrista. Kannski eru einhverjar aðrar ástæður þar að baki.

Það eru svona undarleg fyrirtæki á listanum og maður spyr sig: Er þetta eðlilegt miðað við markmið þess ríkisstuðnings sem við erum að leggja til? Þess vegna þarf að spyrja þessara spurninga. Við erum að nota almannafé til að styrkja ákveðin fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þá viljum við og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu tvímælalaust vita hvort það séu einhver fyrirtæki sem eru ekki í ferðaþjónustu sem nýta sér þessar ferðagjafir. Ný fyrirtæki sem eru stofnuð og gera síðan ekki neitt meira en að vinna í kringum þessar ferðagjafir, myndu þau falla undir þetta frumvarp? Það er vissulega takmarkandi listi í 1. gr. sem er með ákveðna eftirlitsskyldu upp á gilt leyfi frá Ferðamálastofu, rekstrarleyfi fyrir veitingastaði, gististaði og skemmtanahald o.s.frv. Hversu opið er þetta og auðvelt aðgengi að þeirri skráningu? Það er vert að spyrja um það.

Eftirlitið virkar þannig, hið opna, gagnsæja eftirlit eða sjálfseftirlit, ef má orða það þannig, sem margir hafa verið hrifnir af, að markaðurinn geti alla vega haft tækifæri til að hafa eftirlit með sjálfum sér í t.d. svona málum. Ef einhver er að svindla á styrknum þá kemur það niður á öllum hinum. Það kemur niður á skattgreiðendum líka þegar allt kemur til alls.

Þetta er mjög áhugavert mál, ég verð að taka það fram, og mér líst mjög vel á að prófa þetta eins og það er lagt fram hérna. En af því að þetta er nýtt eru ýmis atriði sem þarf að huga að og spyrja spurninga um. Svörin við því geta alveg verið þau að við erum að prófa ýmsa hluti. Það gæti alveg verið fullkomlega gott svar, ágætissvar þegar við erum að prófa hlutina í fyrsta skipti. Við sjáum hvernig þeir koma til með að virka. En þess vegna er líka gott að hafa spurt spurninganna til að byrja með til að hægt sé að hafa eftirlit með því hvort ákveðin misnotkun kemur upp á meðan úrræðið gildir. Þá er alla vega hægt að koma í veg fyrir misnotkun á meðan úrræðið er í gildi. Af þeim orsökum er mjög nauðsynlegt að spyrja þeirra spurninga sem hafa komið upp í umræðunni núna.

Að öðru leyti óska ég ráðherra velfarnaðar með þetta mál því að ég vona að það nái í gegn.