150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni sköruglega maraþonframsögu. Þetta er flókin umræða og ég ætla svo sem ekki að vera að flækja hana mjög mikið en vil stinga upp á því hvort við í nefndinni gætum rætt milli 2. og 3. umr. um 13. gr. þar sem talað er um lágmarksnámsframvindu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Veita má undanþágu frá kröfum um lágmarksnámsframvindu sé lánþega það vandkvæðum bundið að mati sjóðstjórnar að stunda nám …“

Og svo er ýmislegt talið upp sem veita eigi slíkar undanþágur. Ég velti fyrir mér hvort við getum bætt inn í þessar undanþágur flóttafólki og innflytjendum sem þurfa að fara í viðbótarnám til að fá viðurkenningu á sínu fyrra námi en ná ekki að uppfylla þessar lágmarksframvindukröfur, hvort það væri ekki alveg tilvalið. Þetta er ábending (Forseti hringir.) frá Landssambandi íslenskra stúdenta. Er ekki alveg tilvalið að nefndin taki þetta fyrir milli 2. og 3. umr.?