150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta um frumvarp um Menntasjóð námsmanna. Áður en ég byrja á því langar mig að nefna það sem flaug í hugann þegar ég heyrði lokaorð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar þegar hann mælti fyrir nefndaráliti sínu, þegar ég heyrði þessi skáldlegu orð um gildi menntunar. Við þurfum að hafa þau í huga þegar við erum að vinna mál af þessu tagi, sem snýst oft um tölur og ýmsa lagabókstafi og í eru ýmis flókin tæknileg atriði, við þurfum alltaf að muna til hvers við erum að þessu. Sveinbjörn Egilsson, sem var rektor við Bessastaðaskóla, sem seinna varð Lærði skólinn, sem seinna varð Menntaskólinn í Reykjavík, sagði í skólaræðu þegar hann setti Bessastaðaskóla eitt sinn — og voru það þá eingöngu skólapiltar sem hann var að tala við, það voru bara drengir sem fengu að læra, svona hefur okkur nú miðað þrátt fyrir allt: Vér lærum ekki til að verða lærðir, heldur til að verða góðir. Við lærum ekki til að vera lærð, heldur til að verða góð, þ.e. menntun hefur ekki bara gildi í sjálfri sér — hún hefur það vissulega, menntun hefur gildi í sjálfri sér, en menntun snýst ekki bara um lærdóminn, ekki bara um að framleiða þau verðmæti sem lærdómurinn getur fært okkur, alls kyns efnisleg verðmæti, heldur snýst menntun líka og ekki síður um gott og fagurt mannlíf. Það er það sem við erum að fjárfesta í með sjóði af þessu tagi. Við erum að fjárfesta í menningarstigi samfélagsins, í menntastigi samfélagsins. Við erum að fjárfesta í því að verða góð, að hér sé gott líf.

Svo að ég víki að nefndarálitinu sem ég mæli hér fyrir, og er frá 2. minni hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar, þá er þar fyrst til að taka að það er margt gott og jákvætt við þetta frumvarp og margt horfir til mikilla bóta. Það er mjög gott að ábyrgðir sem teknar voru í eldri tíð skuli falla niður, að vísu með tilteknum skilyrðum. Það er gott að gefinn sé kostur á frestun á endurgreiðslum þegar upp koma sérstakar kringumstæður; færslan sem hér er lagt af stað með, úr lánakerfi yfir í styrkjakerfi, er góð þróun sem vonandi á eftir að þróast áfram. Og styrkur sem fylgir börnum, það er jákvætt. Svo að ég haldi áfram að rekja það sem er jákvætt við frumvarpið má sérstaklega nefna breytingartillögu hv. meiri hluta um að sett verði á vaxtaþak þar sem kveðið er á um að vextir verðtryggðra lána fari ekki yfir 4% og vextir óverðtryggðra lána fari ekki yfir 9%. Þó að við í minni hlutanum hefðum kannski kosið að sjá þessar tölur lægri þá er það fagnaðarefni að nefndin hafi fallið frá þessum áformum um að velta svona mikilli áhættu yfir á lánþegana sem að okkar mati hefði gengið gegn meginhlutverki þessa sjóðs, sem er félagslegt jöfnunarhlutverk. Þessi sjóður, og við megum heldur ekki gleyma því, hefur frá því að hann var stofnsettur um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar skapað hljóðláta byltingu í íslensku samfélagi, hefur gjörbylt samfélaginu vegna þess að hann hefur gert fólki sem kemur frá efnalitlum heimilum kleift að brjótast til mennta og vinna síðan við það fag sem það hefur menntað sig til. Þannig hefur það auðgað samfélagið okkar alveg óendanlega mikið og þarna eru mikil verðmæti sem við þurfum að hlúa að og rækta. En því er ekki að neita að á seinni árum hefur þessi sjóður gegnt þessu hlutverki æ verr, þ.e. þessu félagslega jöfnunarhlutverki og okkur finnst sem kannski hafi ekki tekist nægilega vel til að nota hér tækifærið til að ráða bót á því.

Þá kem ég kannski að meginathugasemd okkar við frumvarpið sem snýst um framfærsluna. Að okkar mati eru mjög óljós markmið og vítt orðalag um framfærsluna og við erum þess vegna með breytingartillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Framfærslulán skulu nægja hverjum námsmanni til að standa straum af dæmigerðu neysluviðmiði á Íslandi að viðbættum húsnæðiskostnaði meðan á námi stendur, að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu“.

Við reynum að gefa stjórninni dálítið skýrari fyrirmæli um það við hvað hún á að miða og eftir hvaða viðmiðum hún á að starfa þegar hún er að ákvarða þessa framfærslu, frekar en að segja bara að framfærsla skuli miðast við framfærslu. Mig langar í þessu sambandi til að vitna til umsagnar stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:

„Stúdentar hafa lengi barist fyrir hærri grunnframfærslu þar sem of lág framfærsla neyðir þá til að vera á vinnumarkaði til að geta framfleytt sér á sama tíma og þeir stunda nám. Það verður til þess að tekjur stúdenta eru yfirleitt hærri en frítekjumark sem sjóðstjórn ákveður. Það leiðir svo til skerðingar á námslánum sem neyðir stúdenta til að vinna meira til að sjá fyrir sér. Þessi vítahringur hefur hingað til vissulega verið á ábyrgð stjórnar. Þar sem engar breytingar eða fyrirmæli koma fram til stjórnar vegna framfærslulána í nýju kerfi er hér tapað færi á að krefja stjórn um endurskoðun þeirra svo stúdentum verði raunverulega gert kleift að framfleyta sér í námi. Því til viðbótar má benda á að frumvarpið boðar ekki neinar efnislegar breytingar á hlutverki eða markmiði sjóðsins svo sjóðstjórn er ekki skylt að breyta framkvæmd sinni til að tryggja aðgengi að námi frekar en gert er með gildandi lögum.“

Hér hefur orðið til vítahringur sem erfitt virðist að komast út úr, þ.e. stúdentar verða að vinna með námi til að geta framfleytt sér, sem aftur verður til þess að skerða lánin. Það hvarflar að manni að eitthvað af þessu sé svona menningarlegt. Við vitum að stúdentar hér á Íslandi vinna meira með námi en tíðkast í nágrannalöndum okkar og mann grunar að okkur finnist einhvern veginn undir niðri, og kannski ekki einu sinni undir niðri heldur bara opinskátt, að svona eigi hlutirnir að vera. Þetta sé gott samfélag, þetta sé dýnamískt, sé frjósamt. Þannig kynnist stúdentarnir og námsmennirnir lífinu eins og það er í landinu, vinnu til sjós og lands, störfum sem göfga fólk og gera það sterkara og gera því kleift að takast betur á við það sem lífið á eftir að færa þeim. Og það er kannski margt til í því. En kannski ekki þegar maður er kominn í háskóla og er kominn í flókið og erfitt nám sem heimtar alla krafta manns. Hættan er frekar sú að fólk flosni frá þessu krefjandi námi og freistist til þess, eða bara einfaldlega neyðist til þess, að fara alfarið út á vinnumarkaðinn.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni áðan erum við með dálítið mismunandi áherslur í nefndarálitum okkar, en þó held ég að þau tali vel saman og vinni vel saman. Þingheimur gerði rétt í því að samþykkja allar okkar breytingartillögur og þá verður þetta allt orðið harla gott. Meðal þess sem við erum með breytingartillögu um, en er ekki að finna í breytingartillögu 1. minni hluta, er um 4. gr. um lánsréttinn, þ.e. ECTS-einingarnar, en miðað er við að þær séu 420. Það viðmið er lægra en það sem var að finna í fyrri frumvarpsdrögum þar sem kveðið var á um að 420 ECTS-einingar væru lágmarkslánsréttur en sjóðstjórn gæti hækkað það viðmið. Við leggjum því til að þessu ákvæði verði breytt til fyrra horfs enda hafa námsmenn lengi kallað eftir hærri lánsrétti. Það er líka misráðið að mati okkar að einungis sé hægt að fá lán fyrir 60 ECTS-einingum í doktorsnámi vegna þess að doktorsstigið býr við fjársvelti. Það er kannski óraunhæft að miða við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar vegna þess að þar er doktorsstigið miklu öflugra. Þar er það miklu meira styrkt. Styrkir til doktorsnáms hér á landi eru af mjög skornum skammti og þá er dálítið hætt við því, þegar fólk er kannski í miðju doktorsnámi og búið með einingarnar sem það fær lán fyrir, að það neyðist til að fara út á vinnumarkaðinn og það er erfitt að vera á vinnumarkaði, hugsanlega í krefjandi starfi, og svo aftur að klára doktorsnám. Þá er hætt við því að doktorsnámið fari í súginn og þar með fer í súginn heilmikil fjárfesting og heilmikil þekking. Samfélagið missir af doktor og missir af rannsóknum og viðkomandi einstaklingur missir þá líka af þeirri fjárfestingu sem hann hefur þó lagt í, þ.e. hann nær ekki að ljúka því. Við viljum ráða bót á þessu.

Aðeins um 11. gr., þ.e. um að þeir sem ekki teljist tryggir lánþegar leggi fram ábyrgðir sem sjóðurinn telji viðunandi. Þá vil ég enn og aftur minna á að þessi menntasjóður er félagslegt jöfnunartæki til að tryggja aðgang allra að námi óháð efnahag. Menntun er sennilega mikilvægasta úrræðið fyrir einstakling sem kann að vera illa staddur í lífinu af einhverjum ástæðum og þarf að koma fótunum undir sig á ný. Þetta getur verið fólk sem er eignalítið eða eignalaust eða fólk sem hefur ekki sterkt fjárhagslegt bakland eða fólk sem hefur hugsanlega afplánað dóm og hyggur á nýtt upphaf. Fólk sem er í slíkum aðstæðum þarf að hafa rétt til þess að taka námslán til að geta skapað sér sterkari stöðu á vinnumarkaði og það eiga allir að geta sótt sér nám óháð efnahag. Í þessu sambandi vil ég, með leyfi forseta, taka undir það sem kemur fram í umsögn BHM um 11. gr.:

„Í 11. gr. frumvarpsins segir að námsmaður sem ekki telst tryggur lánþegi samkvæmt úthlutunarreglum skuli leggja fram ábyrgðir fyrir lántökum sínum. BHM minnir aftur á að í 1. gr. frumvarpsins segir að markmið laganna sé að tryggja öllum tækifæri til náms óháð efnahag. Vandséð er að 11. gr. frumvarpsins samrýmist því markmiði. BHM leggur til að greininni verði breytt þannig að erfið fjárhagsleg staða komi ekki í veg fyrir að námsmaður geti nýtt sér námsaðstoð sjóðsins.“

Undir þetta tökum við og gerum jafnframt að tillögu okkar að felldar verði brott málsgreinar þar sem fjallað er um hlutverk ábyrgðarmanna. Við leggjum til að ábyrgðarmannakerfið við töku námslána verði alfarið afnumið.

Aðeins um 19. gr. Árin eftir námslok geta verið dálítið erfið eins og við munum kannski sum. Þá stofnum við fjölskyldu og efnum til alls kyns fjárhagsskuldbindinga sem eru nauðsynlegar til þess einfaldlega að sinna grunnþörfum; komast á milli staða, eiga þak yfir höfuðið og þar fram eftir götunum. Þetta getur kostað mikil og alveg ótrúleg fjárútlát fyrir ungar barnafjölskyldur og ofan á það leggst að greiða af námslánum, sem getur verið þung byrði vegna þess að stundum eru tekjur háar. Í þessu ljósi er það óheppileg breyting að endurgreiðslur námslána hefjist einu ári eftir námslok í stað tveggja ára eins og kveðið er á um í núverandi fyrirkomulagi. Við gerum að tillögu okkar að þessu ákvæði verði breytt til samræmis við það sem nú er og endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok.

Svo er það 21. gr., sem ég vék að áðan í andsvörum við hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, um að tekjutenging miðist við 35 ára. Nú á tímum er svo komið að fólk er alla ævina að mennta sig og fólk þarf að sækja sér endurmenntun á öllum aldri. Það getur verið til að afla sér meiri þekkingar á einhverjum sviðum sem það vinnur við eða það getur verið til að söðla um vegna þess að einhver færni sem það hefur aflað sér nýtist ekki af einhverjum ástæðum á vinnumarkaði og þá þarf fólk að sækja sér nýja menntun. Fólk getur verið að glíma við alls konar aðstæður á öllum aldri og það er ekki sanngjarnt að okkar mati að tekjutenging námslána sé ekki valkostur eftir ákveðinn aldur. Ef fólk velur að sækja sér aukna menntun, fjárfesta í nýrri menntun, sama á hvaða aldri það er, ætti það alltaf að eiga kost á því að greiða af námslánum sínum sem nemur hlutfalli af tekjum. Í því sambandi minni ég enn og aftur á félagslegt hlutverk þessa sjóðs og að tekjutenging afborgana er mikilvægt jöfnunarúrræði sem ber að vernda.

Loks vík ég að þeirri breytingu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til á skilyrðum fyrir niðurfellingu ábyrgða. Ég fagna þeirri breytingu, þ.e. því skilyrði sem kveður á um að viðkomandi sé ekki á vanskilaskrá. Við viljum hins vegar ganga lengra og afnema alveg skilyrði fyrir brottfalli ábyrgðanna, þ.e. því skilyrði að lán sé í skilum. Þetta er réttlætismál og það er ekki síst í þeim tilvikum þegar fólk erfir slíkar ábyrgðir og þá jafnvel á lánum einstaklinga sem viðkomandi hefur aldrei einu sinni heyrt um. Hjá mörgu rosknu fólki má oft lítið út af bregða varðandi fjárhag og allar slíkar skuldbindingar, sem það hefur jafnvel ekki undirgengist sjálft og ekki skrifað upp á ábyrgð fyrir, geta orðið þungur baggi með tilheyrandi áhyggjum og við höfum mörg dæmi um slík tilvik. Þetta er óréttlátt og ekki verður ráðin bót á því nema ábyrgðarmannakerfi verði afnumið.

Mennt er máttur, segir máltækið. Og þótt máltæki séu oft útjaskaðar og þreyttar klisjur þá er oft eitthvað til í þeim. Við megum hins vegar ekki gleyma því að við lærum ekki til að verða lærð, heldur til að verða góð. Þess vegna er þetta stærsta og ein helsta fjárfesting mannsævinnar sem við vélum hér um. Þetta er líf fólks og lífskjör fólks í landinu, það er það sem er hér undir. Menntun ræðst af lífskjörum og lífskjörin ráðast af menntun.