150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

skattlagning eignarhalds á kvóta.

[10:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að ræða aðeins við hæstv. ráðherra um sjávarútveginn. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að Sjálfstæðisflokkurinn deili ekki sýn okkar í Samfylkingunni á fiskveiðistjórnarkerfið, hvorki um nauðsyn þess að tímabinda aflaheimildir eða kröfu um eðlilegt gjald í stjórnarskrá fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki ljáð máls á útfærslum, svo sem markaðsleið sem gæti skilað eigendunum eðlilegu gjaldi. Þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins fellt allar tillögur okkar um hækkun veiðigjalda og hafa beinlínis lækkað þau um helming á kjörtímabilinu og ítrekað aflétt álögum af greininni, jafnvel nú í miðjum veirufaraldri. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að sjávarútvegsfyrirtæki eru misjafnlega stödd, alveg eins og í öðrum atvinnugreinum. Það finnast reyndar lausnir til að koma á móts við þau. En það er líka morgunljóst að eigendur margra þeirra stærstu hafa rakað til sín óheyrilega miklum gróða á síðustu árum, jafnt í niður- og uppsveiflu.

Nú á dögunum var sett Íslandsmet í arfi þar sem uppsafnaður ágóði af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar var afhentur nýrri kynslóð. Um er að ræða mestu tilfærslu á verðmætum milli kynslóða í íslenskri útgerðarsögu af takmarkaðri auðlind okkar. Hvað finnst hæstv. sjávarútvegsráðherra um að þær upphæðir sem hér um ræðir og koma til vegna afnota af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar séu ekki skattlagðar í ríkari mæli? Finnst honum það í fullri einlægni vera eðlilegt, sanngjarnt, heilbrigt?