150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

skattlagning eignarhalds á kvóta.

[10:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er auðvitað mikilvægt að í fiskveiðistjórnarlögunum standi að þetta sé sameign okkar, það sé skýrt. Það er hins vegar ekki nóg þegar einstakir útgerðarmenn og erfingjar þeirra geta mokað út úr greininni endalaust af fjármunum. Með tímabundinni úthlutun aflaheimilda gætum við komið í veg fyrir að hægt sé að færa þær aflaheimildir milli kynslóða með þessum hætti. Ástæðan fyrir því að ég nefni að Sjálfstæðisflokkurinn ljái ekki máls á þessu er einfaldlega afstaða Sjálfstæðisflokksins í vinnu formanna flokkanna í stjórnarskránni. Það eru ný tíðindi og ég vona að formaður Sjálfstæðisflokksins mæti á næsta fund og fallist á það að við setjum inn í stjórnarskrárákvæðið ákvæði um tímabindingu. Hann hefur ekki ljáð máls á því. En ég vil fá svör ráðherra við því hvort honum finnist þetta eðlilegt, sanngjarnt og heilbrigt, (Forseti hringir.) ekki að það skuli vera skiptar skoðanir í samfélaginu. Ég vil fá svör ráðherra hvort honum finnist þetta heilbrigt ástand.