150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

skattlagning eignarhalds á kvóta.

[10:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Af því að hér var fullyrt að formaður Sjálfstæðisflokksins ætti að mæta betur á stjórnarskrárfundina þá hefur hann alltaf mætt, þannig að það sé sagt hér úr þessum stól. (LE: Vertu ekki að snúa út úr. …) Nei, ég er bara að svara fullyrðingum hv. þingmanns, forseti. Hér (Gripið fram í.) er fullyrt, bæði um afstöðu Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) og framgöngu (Forseti hringir.) hans varðandi þessi mál — ef ég fæ að hafa orðið, hv. þingmaður — þegar hér er talað um hvort eðlilegt sé að fjármunum sé mokað út úr greininni. Nei, mér finnst ekkert eðlilegt við að fjármunum sé mokað út úr einhverri tiltekinni atvinnugrein ef þannig háttar til.

Varðandi það mál sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni þá sá ég það örugglega á sama tíma og hv. þingmaður í fjölmiðlum. Það hefur ekki komið inn á mitt borð. (LE: En fannst … það heilbrigt? Fannst … það sanngjarnt …?) Ég var að segja að mér finnst ekki eðlilegt ef menn standa í einhverjum fjármokstri út úr tiltekinni atvinnugrein. Það er bara þannig. Það gilda bara um þetta ákveðnar reglur, hvort tveggja skattalegar reglur og ákveðin lög um meðferð mála og þeim ber að fylgja.