150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

strandveiðar og veiðar með snurvoð.

[10:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Hv. atvinnuveganefnd kom fram með frumvarp sem við samþykktum á þinginu í fyrra þar sem við huguðum að smábátaeigendum og sókn þeirra í fiskinn okkar á sumartíma. Við úthlutuðum þeim 48 dögum. Við töluðum um að við ætluðum að koma í veg fyrir hinar svokölluðu ólympísku veiðar þar sem þeir keppast um að sigla á milli svæða til þess að ná sér í fisk. Þannig að við erum hér með A-, B-, C- og D-hólf. Við töluðum líka um að reyna að koma í veg fyrir slysahættu á sjó, að reyna að forðast það að sjómenn leituðu út á miðin í vondum veðrum til að reyna að nýta þá daga sem þeir höfðu þegar fengið.

Ég veit, og við vissum það í fyrra, að það var urgur í Skagfirðingum því að þar voru snurvoðarbátar að snurpa hreinlega uppi í harðalandi. Við vitum alveg hvað snurvoðin gerir lífríkinu. Núna er 300 tonna bátur frá Suðurnesjum, sem hefur fram að þessu nánast alltaf landað annaðhvort í Sandgerði eða Þorlákshöfn, að þurrka upp Patreksfjörð á snurvoð.

Ég efast ekki um að hæstv. ráðherra hafi heyrt þessar óánægjuraddir, sem eru ekki bara til komnar út af þessu eina dæmi heldur út af svo mörgu öðru. Þannig að mig fýsir að vita: Hvernig stendur á því að þessir hlutir eru látnir viðgangast, að skip komi annars staðar að, risaskip sem þurrka upp firðina sem smábátaútgerðareigendur gætu annars nýtt sér, t.d. í vonskuveðrum með því að vera inni á fjörðunum sínum í stað þess að leita lengra út til að fiska?

Ég spyr í fyrsta lagi: Hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki vitað af þessu? Og í öðru lagi: Ætlar hann að láta þetta líðast?