150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

strandveiðar og veiðar með snurvoð.

[10:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg rétt að við höfum gert breytingar á strandveiðikerfinu, m.a. til að reyna að draga úr þessum ólympíska veiðiskap sem þar var. Þetta var einn pottur og svo máttu menn bara sækja óheft, hver á sínum forsendum. Við breyttum þessu á þann veg að nú eru 12 dagar í mánuði sem menn geta valið sér til að róa til fiskjar. Ég held að árangurinn af því hafi m.a. verið sá sem hv. þingmaður nefndi áðan, að dregið hafi úr slysahættu á sjó, sem betur fer, þannig að einhver hluti þess tilgangs sem með því var ætlaður hefur náð fram að ganga.

Ég þekki þessar deilur um snurvoðina sem hafa staðið í ár og áraraðir, mjög lengi. Ég er alinn upp í Eyjafirði þar sem þessi umræða hefur verið í mörg herrans ár og hefur alltaf verið. Ég hef ekki verið á þeim stað að leggja bann við tilteknum veiðarfærum á tilteknum svæðum vegna þess að í grunninn er fiskveiðistjórnarkerfið gert á þann veg að menn geta sótt á sínum forsendum þann afla sem þeir hafa heimild til að taka. Hafrannsóknastofnun hefur dregið línur og gert tillögu til ráðuneytisins á liðnum árum ef það þarf að takmarka sókn á tilteknum hafsvæðum og ráðuneytið hefur sem betur fer fylgt þeirri ráðgjöf mætavel. En ráðuneytið hefur ekki endilega verið með bein pólitísk inngrip í fiskveiðistjórnina, eins og mér heyrist hv. þingmaður vera að kalla eftir.