150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

strandveiðar og veiðar með snurvoð.

[10:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Jú, ég kalla eftir því, það er nokkuð ljóst. Mér skilst að fyrir 20 árum hafi einmitt verið tekið á þessu hvað varðaði snurvoðaveiðar uppi í harðalandið, hreinlega uppi í kálgörðum hjá mönnum. Það er heldur ekki rétt að þó svo að meginreglan væri sú að gefa mönnum og sjómönnum frjálst val um að sækja þann afla sem þeim er úthlutað og þeir hafa heimild til að sækja þá á það alls ekki við um smábátaeigendur, samanber það sem hæstv. ráðherra sagði réttilega áðan. Það er búið að skipta þessu upp í fjögur svæði til að reyna að koma í veg fyrir ólympískar veiðar en á sama tíma kemur 300 tonna bátur inn í Patreksfjörð og þurrkar þar upp allan afla. Þetta skjól sem smábátasjómenn geta hugsanlega nýtt sér þegar er vonskuveður, í stað þess að geta nýtt sér það inni á firðinum núna þurfa þeir að fara út fyrir þar sem einmitt blæs verulega.

Miðað við það reglugerðafargan sem hæstv. ráðherra hefur nú komið á, og t.d. bara slengt í burtu grásleppuveiðunum (Forseti hringir.) með einu pennastriki, þá spyr ég: Er ekki ástæða til, miðað við þann skaðvald sem (Forseti hringir.) snurvoðin er við lífríkið í sjónum, að hæstv. ráðherra taki þetta til gagngerrar endurskoðunar?