150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fyrirspurn um skilgreiningu tengdra aðila í sjávarútvegi.

[10:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók að sér mikilvæg verkefni til eflingar trausti á íslensku atvinnulífi í kjölfar uppljóstrana um vafasama starfshætti sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Namibíu sl. haust. Meðal þeirra var að flýta endurskoðun á skilgreiningum um tengda aðila í sjávarútvegi. Sú endurskoðun á sér þó talsvert lengri aðdraganda eins og fram kemur í skýrslu ríkisendurskoðanda um Fiskistofu en þar stendur, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar má rekja tilraunir starfsmanna Fiskistofu til að skilgreina nánar hugtökin „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“ aftur um rúman áratug.“

Í skýrslunni kemur fram að reynsla Fiskistofu af frumkvæðisathugun á tengslum milli útgerðarfélaganna Samherja, Síldarvinnslunni og Gjögur á árunum 2009–2010 og háværum mótbárum þeirra félaga um raunveruleg yfirráð sín á milli, átti stóran þátt í þeirri niðurstöðu Fiskistofu að erfitt sé að sýna fram á óbein yfirráð aðila yfir aflahlutdeildum miðað við núgildandi lög. Þá kemur fram að Fiskistofa hafi af þeim sökum ekki sinnt virku eftirliti með tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi allar götur síðan.

Forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur birt frumvarpsdrög sem svara þessu kalli Fiskistofu og snýr sönnunarbyrðinni um tengda aðila yfir á fyrirtækin sjálf, sem er vel. Hins vegar er verra að hæstv. ráðherra hyggst gefa aðilum yfir lögbundnu hámarki heil sex ár til aðlögunar því að Fiskistofu sé gert kleift að framfylgja ákvæðunum. Ráðherrann hefur sagt sjónarmiðin að baki því vera þau að efni frumvarpsins hafi íþyngjandi áhrif á atvinnustarfsemi sem byggð hefur verið upp í samræmi við núgildandi lög.

Virðulegur forseti. Það hefur löngum verið skýrt að lögin segja að hámarksaflahlutfall einstakra aðila og tengdra félaga sé 12%. Frumvarp hæstv. ráðherra breytir engu efnislega um þetta hámark, það gefur Fiskistofu einfaldlega verkfæri til þess að framfylgja hámarkinu. En í staðinn fyrir að gefa Fiskistofu verkfærið skal hún bíða í sex ár í viðbót við áratuginn sem hún hefur þegar beðið eftir því. (Forseti hringir.)

Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig það efli traust á íslensku atvinnulífi að gefa útgerðunum sex ár í viðbót til þess að fara að lögum.