150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

frumvarp um skilgreiningu tengdra aðila í sjávarútvegi.

[11:00]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hvort ráðherra sé opinn fyrir því að stytta þennan aðlögunarfrest í ljósi þess að málinu hefur verið frestað fram á haust og í ljósi þess hversu lengi hefur verið óskað eftir því að Fiskistofa fái verkfæri til að framfylgja þeim ákvæðum sem þó eru í lögum og það er 12% hámarksaflahlutdeild. Þetta hefur alltaf verið skýrt. Fordæmið sem hæstv. ráðherra vísar í snýr að því þegar krókaaflamark var sett undir þá sömu reglu. Það er vissulega efnisleg breyting á því hvernig mat á hámarksaflahlutdeild fer fram. En nú er ekki lagt til að breyta hámarksaflahlutdeild. Einungis er lagt til að Fiskistofa hafi verkfæri, að útgerðarfélögum sé gert að sanna það sjálf að eigin frumkvæði að þau séu ekki tengdir aðilar. Hér er verið að setja formreglur um efnisregluna 12% hámarksaflahlutdeild. Mér þykja rökin um jafn langan aðlögunartíma þar af leiðandi ekki eiga við að sama skapi og þegar (Forseti hringir.) krókaaflamarkið var tekið fyrir. Er ráðherra opinn fyrir því að endurskoða þann gríðarlega langa tíma sem (Forseti hringir.) hann ætlar að gefa útgerðum til að fara að lögum?