150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

undirbúningur við opnun landamæra.

[11:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þing og þjóð eru orðin nokkuð vön því að ríkisstjórnin komi fram á blaðamannafundum og tilkynni um áform sín sem hún reynir svo að raungera í framhaldinu. Ríkisstjórnin hefur verið svo heppin að stjórnarandstaðan hefur tekið vel á með henni og reynt að sníða verstu vankanta af nokkrum málum sem lögð hafa verið fram. Ég get nefnt sem dæmi að nú eru líklega liðnir tveir mánuðir síðan brúarlánaáætlunin kom fram og það er varla farið að veita eitt einasta lán. Þessu eru þing og þjóð orðin vön.

Nú hefur ríkisstjórnin aftur á móti tilkynnt heiminum að Ísland muni opnast 15. júní. Heimurinn er ekki vanur því að fá svona meldingar eins og við höfum fengið hér á þinginu undanfarið og trúir því að landið muni opnast 15. júní.

Þá verður maður að spyrja: Hvaða áætlanir eru uppi? Það hefur komið fram að ekkert samráð var haft. Nokkrir læknar hafa stigið fram, þeir höfðu ekki hugmynd um þetta. Smitsjúkdómalæknir kom fram í útvarpinu nú í vikunni, yfirlæknir göngudeildar — þeir höfðu ekki hugmynd um þetta. Spurningin er: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að vinna þetta? Ætlar hún að vinna þetta í samstarfi við einhvern mann? Ég skildi þetta kannski betur allt saman þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði hér áðan: Það er bara framkvæmdin eftir. Það er bara framkvæmdin eftir, hugsið ykkur. Þetta er einmitt það sem ríkisstjórnin hefur starfað eftir. Það er bara framkvæmdin eftir. Það var bara tilkynnt á blaðamannafundi með pompi og prakt og svo bara gerist ekki neitt, það er bara framkvæmdin eftir.

Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga: Hvert er planið með að opna landið 15. júní? Og hvernig stendur á því að yfirlýsingar um kostnað af skimun á Keflavíkurflugvelli eru víðáttufjarri hvor annarri, (Forseti hringir.) þ.e. tölur sem við heyrðum í gærkvöldi frá virtum vísindamanni og þær tölur sem ráðuneytið hefur lagt upp með?