150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

opnun landamæra 15. júní.

[11:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka undir með hæstv. ráðherra að ég eigi nokkurn hlut í því að útrýma þessari veiru því að það á heilbrigðisstarfsfólkið okkar skuldlaust. Óvissa, segir hæstv. ráðherra. Þetta er ekkert svo rosalega mikil óvissa, hæstv. ráðherra. Ef hingað koma sex áætlunarflugvélar á dag fyrstu vikurnar getum við gert ráð fyrir allt að 1.200 manns komi hingað, þ.e. miðað við 100% nýtingu, sem er ólíklegt. Þá miðum við náttúrlega við það, er það ekki? Það er ekkert svo ólíklegt. Þessar áætlanir eru gerðar vikur og mánuði fram í tímann. Ef Flugleiðir setjast t.d. niður núna geta menn sagt okkur fyrir 15. júní hve margar flugvélar koma til Íslands 31. desember nk. Þannig er þetta og það er ekki mikil óvissa. Eina óvissan í því sambandi er hvernig ríkisstjórnin fer fram. Hæstv. ráðherra sagði að við hefðum með færasta fólkinu okkar verið að reyna að ráðslaga með þetta. En hver læknirinn á fætur öðrum kemur fram og segir: Ég hafði ekki hugmynd um þetta. (Forseti hringir.) Forstjóri Landspítalans, smitsjúkdómalæknir, yfirlæknir göngudeildar höfðu ekki hugmynd um þetta. (Forseti hringir.) Hvaða besta fólk var þetta sem verið var að vinna með? Ráðuneytisfólkið?