150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

opnun landamæra 15. júní.

[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu höfum við verið að vinna með því fólki sem hefur komið að þessum málum og staðið í framlínunni eins og sóttvarnalækni, almannavörnum, ríkislögreglustjóra, landlækni og öðrum. Þetta er fólkið sem við höfum treyst á fram til þessa og höfum haldið áfram að gera.

Spurt er um ólíkar tölur um kostnað. Kostnaðurinn á hvern ferðamann fellur auðvitað eftir því sem fleiri taka þátt í að standa undir fastakostnaðinum. Það fer þess vegna eftir því hvaða forsendur menn gefa sér að hvaða niðurstöðu þeir komast að um kostnaðinn. En það er auðvitað miklu áhugaverðari umræða að fara út í en sú sem hv. þingmaður býður upp á hér, að velta fyrir sér: Hversu lengi eigum við að taka á okkur slíkan kostnað og hversu mikill getur hann verið til þess að aðgerðin sé réttlætanleg?

Ég er þeirrar skoðunar að við séum á réttri braut. Við eigum að miða við að skima alla þá sem koma inn og sjá hvaða upplýsingar við fáum út úr þeim skimunum til að taka síðan frekari ákvarðanir í framhaldinu.