150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sannarlega eiga þeir sem þurfa að treysta á almannatryggingar rétt á því að við stöndum með þeim. Og það er rétt að við ákváðum að setja sérstaka viðbótargreiðslu út til þeirra sem eru á örorkubótum. Ég er ekki alveg sannfærður um að þeir séu í öllu tilliti í nákvæmlega sömu stöðu og þeir sem eru á ellilífeyri, enda erum við nýlega búin að gera mjög veigamikla kerfisbreytingu á ellilífeyrisgreiðslum en höfum ekki náð árangri, þrátt fyrir margra ára vinnu, við að endurskoða kerfi örorkubótanna. Það er mjög miður. Ég vek sömuleiðis athygli á því að við eigum inni verulega háa fjárhæð, ónýtta fjárheimild, á yfirstandandi ári fyrir þann málaflokk sem dregur úr þörfinni á því að koma með aðra tillögu inn í fjáraukalagafrumvarp þegar fjárheimildir málaflokksins eru ekki að fullu nýttar. (Forseti hringir.) Þetta er því ekki að öllu leyti sambærilegt. Þessi ónýtta fjárheimild er sem sagt í örorkunni en hv. þingmaður vill fá viðbótarfjármagn inn í ellilífeyrinn.