150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:29]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í þessum fjárauka eru fjármunir settir í endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar vegna eldri verkefna. Þetta er fortíðarskuldbinding sem verið er að mæta, gott og vel. Ég vil hins vegar líta til framtíðar og spyrja ráðherra beint út hvort hann sé ekki tilbúinn til að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í t.d. 35%. Slík breyting skiptir í alvörunni mjög miklu máli núna. Við ráðherra erum vonandi sammála um að hér þurfi að skapa störf en svona breyting myndi einmitt skapa störf í einkageiranum en einnig skapa miklar skatttekjur. Kvikmyndaiðnaðurinn gæti orðið næsti Eyjafjallajökull. Þetta er risastór iðnaður og við þurfum aðeins brot af honum til að hjálpa okkur upp úr þessari kreppu. Áhuginn er fyrir hendi nú í sumar. Netflix hefur staðfest það, en endurgreiðsluhlutfallið ræður hér för. Það þýðir lítið að tala um að gera þetta í fjarlægri og fallegri framtíð. (Forseti hringir.) Tíminn er núna. Og, herra forseti, ef ráðherra segir já við þessari spurningu er það stórfrétt. Ef hann segir nei er það einnig stórfrétt.