150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hér að leggja til að við vinnum upp halann sem við erum með. Segja má að við séum með dálítið stífan ramma um þessi mál þar sem við skömmtum fjármagn inn í fyrirkomulag, setjum sem sagt fastákveðna krónutölu inn í fyrirkomulag, þar sem við höfum enga stjórn á því hver heildarfjárhæðin getur orðið á hverju ári. Það getur leitt til þess að tímatöf skapast milli þess að framleiðsla á sér stað og endurgreiðsla fer fram. Við leggjum til hér að það verði unnið upp.

Hvort það er rétt hjá hv. þingmanni að nauðsynlegt sé að fara upp í 35% til að leysa úr læðingi þau tækifæri sem eru til frekari umsvifa í þessum geira þori ég ekki að fullyrða um. Ég hef ekki lagt mat á þá stöðu. Ég fullyrði hins vegar að með veikara gengi krónunnar gagnvart dollara hafi þessi staða gjörbreyst. Við erum í raun og veru að niðurgreiða um 25% af öllum innlendum kostnaði í kvikmyndaframleiðslu, sem er mjög ríflegt. Þegar við bætum við lækkun gengisins hefur staðan enn frekar batnað. Það (Forseti hringir.) er líka ástæðan fyrir því að mörg verkefni eru í gangi núna á landinu.