150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að mótmæla því harðlega að það sé einkennandi fyrir aðgerðir stjórnarinnar að vilja niðurgreiða uppsagnir. Við horfumst einfaldlega í augu við þá staðreynd að fyrirtæki sem tapað hafa meiru en 75% af tekjum sínum, verið viðvarandi í þeirri stöðu og sjá ekki fram á annað en að það verði áfram þannig, eru ólíkleg til að geta staðið í skilum með laun, lífeyrisgreiðslur og greitt út orlof. Þetta er aðgerð í þágu starfsmannanna, þetta er aðgerð í þágu launafólks. Að ríkisstjórnin vilji setja fólk á atvinnuleysisbætur er auðvitað alger firra. Við viljum hins vegar að þeir sem lenda í þeirri hörmulegu stöðu að tapa starfi sínu fái stuðning. Ég hygg að við höfum aldrei áður séð aðrar eins aðgerðir til þess að standa með launafólki í landinu og til að bjarga störfum og hafa viðspyrnu til staðar þegar ský dregur frá sólu á ný. Það er einkennið á aðgerðum ríkisstjórnarinnar.