150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það þannig að málið sé að koma út úr þingnefnd og þar hafi verið farið yfir þau álitamál sem snúa að því hvort við höfum þrengt nægilega vel skilyrðin eða hvort við höfum mögulega á einhverjum sviðum gengið of langt í að þrengja skilyrðin fyrir hlutabótaleiðinni. Ég held að verkefnið liggi í því að finna rétta jafnvægið á milli þess að opna úrræði sem varðveitir ráðningarsambandið og hins að setja ekki slík skilyrði fyrir aðgengi að úrræðinu að uppsögn sé alltaf betri kostur fyrir vinnuveitanda. Það er verkefni þeirra sem smíðuðu frumvarpið, ráðherrans og þeirra sem eru núna að vinna að málinu í þinginu, að finna þann gullna meðalveg.

Annars finnst mér það algerlega hafa farið forgörðum í umræðu um misnotkun á úrræðinu að fyrirtækin hafa aldrei fengið krónu út úr þessu úrræði. Þau töpuðu starfskröftum starfsfólksins líka þegar það fór á hlutabótaleið þannig að fyrirtækin sem eru að endurgreiða ríkinu eru ekki að endurgreiða neitt sem þau fengu. (Forseti hringir.) Það er verið að endurgreiða það sem starfsmennirnir fengu. Þetta álitamál sem er með endanlegan kostnað — ég lít ekki á það sem alvarlegt mál vegna þess að það skýrist (Forseti hringir.) og fjárheimildir sem ekki þarf að nýta falla niður.