150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég vil koma inn á það úrræði að efla atvinnu fyrir þá sem eru að leita sér að atvinnu í sumar og næsta vetur. Þetta er gríðarlega mikilvægt og búið að setja fjármuni í það. En hefði ekki verið skynsamlegra að setja meira í úrræðið og hugsanlega draga aðeins úr þeim fjárheimildum sem hér er verið að óska eftir fyrir hlutabótaleiðina sem dæmi? Það er alveg ljóst að haustið verður erfitt. Að sjálfsögðu vonum við að ferðamenn komi í einhverjum mæli núna síðsumars og á haustmánuðum en engu að síður er þetta mjög mikilvægt úrræði, eins og með námsmenn og sumarstörfin, og sveitarfélögin koma að því. En síðan erum við að horfa fram á haustið og veturinn og þá þarf að reyna að búa til atvinnutækifæri fyrir þá sem eru í atvinnuleit. Hefði ekki verið skynsamlegra að setja meiri fjármuni í þá leið?