150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er nær ekkert nýtt að sjá, engar nýjar fréttir, þetta eru allt heimildir sem uppfylla frumvörp sem eru þegar fyrir þinginu eða búið að klára. En það eru tvö atriði sem mig langar að spyrja ráðherra um. Það er annars vegar það sem var talað um í fyrra andsvari, misnotkun á úrræðum eins og hlutabótaleiðinni eða jafnvel þeirri leið að greiða með uppsagnarfresti. Hvað þýðir misnotkun á þeim úrræðum? Er það einhvers konar fjárdráttur, ef það er tekið fjármagn, almannafé, og síðan kemur upp að ekki er alveg farið eftir þeim skilyrðum sem eru sett? Er það endurgreitt? Hvers konar gjörningur er það?

Hitt sem mig langar að spyrja um: Við fengum staðfest á fjárlaganefndarfundi að við erum komin vel fram úr gildandi fjármálastefnu. Geta stjórnvöld bara valið að fara eftir þingsályktunartillögu eftir hentugleika?