150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er ekki þannig að þingsályktunartillögum sé fylgt eftir hentugleika. Það verða að vera einhverjar skýrar ástæður, málefnalegar ástæður til staðar ef menn telja sig ekki geta staðið við það sem áður hefur verið ákveðið.

Varðandi misnotkun á úrræðinu er auðvitað skýrasta dæmið það þegar menn uppfylla alls ekki skilyrði laganna en áskilja sér engu að síður rétt til þess að nýta úrræðin sem lögin bjóða upp á. Hins vegar hefur, held ég, í almennri umræðu um nýtingu þessa úrræðis öllu verið hrært saman í eina skál, því sem við myndum fella undir tilvik þar sem menn uppfylla einfaldlega ekki skilyrðin og það þarf að finna með eftirliti eftir á og svo hins vegar tilvikum þar sem menn eru réttum megin við lagatextann, geta sýnt fram á að þeir séu ekki að brjóta lögin, en starfa kannski ekki í anda laganna eins og ég myndi vilja orða það.