150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að spyrja um málefnalegar ástæður fyrir því að það sé ekki komin ný fjármálastefna. Eins og hefur komið fram er búið að tilkynna að stjórnvöld ætli ekki að fara eftir núverandi fjármálastefnu. Lögin eru mjög skýr um að þá skuli svo fljótt sem auðið er koma ný fjármálastefna. Það kom álit frá fjármálaráði sem var allt á þann veginn að fjármálastefnan ætti að koma svo fljótt sem auðið væri, ekkert ætti að tvínóna við það og svo bætt við einni setningu um að það væru samt málefnalegar ástæður fyrir því ekki væri komin ný fjármálastefna. Það var ákveðin mótsögn í þessu sem útskýrði ekki hverjar málefnalegu ástæðurnar væru. Þegar allt kemur til alls þá eiga stjórnvöld, miðað við lög um opinber fjármál, að sýna festu og gagnsæi og þar fram eftir götunum og geta ekki valið allt í einu á nokkurra mánaða tímabili að sleppa því. Af hverju er ekki komin ný fjármálastefna?