150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Fyrst vil ég segja, virðulegur forseti, að þegar hv. þingmaður segir að stjórnvöld geti ekki valið að gera eitt og annað þá er það alveg rétt, enda erum við algerlega háð því að það myndist meiri hluti fyrir slíku á Alþingi. Þetta er samtal milli þingsins og ríkisstjórnarinnar. Það er spurt: Hverjar eru hinar málefnalegu ástæður? Ég verð að segja að mig furðar að menn þurfi að spyrja að þessu. Hinar málefnalegu ástæður eru efnahagslegar afleiðingar af Covid-19 heimsfaraldrinum sem er að valda mestu og dýpstu efnahagslægð á Íslandi yfir heila öld, reyndar líka í heiminum öllum, og óvissan um framhaldið sem fylgir. Þetta eru ástæðurnar, sem ég hélt að væri alveg hafið yfir allan vafa að væru málefnalegar ástæður fyrir því að menn treystu sér ekki, vegna óvissunnar um framvindu næstu mánaða og hvernig úr myndi spilast, m.a. í alþjóðafluginu, að koma með áætlun um næsta ár og árin þar á eftir fyrr en í haust.