150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[12:08]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að okkur hv. þingmann greini einfaldlega á um það að við erum ekki að verja störfin með því að setja þungann og lungann af aðgerðum okkar í atvinnuleysisbætur og niðurgreiðslu á uppsögn á fólki. Við erum ekki að verja störf. Við erum að mæta þeim vanda, við erum að mæta atvinnuleysi, ég veit það, en hvar eru hinar metnaðarfullu tillögur um að verja störfin, halda lífi í þeim? Þess vegna var hlutabótaleiðin skynsamleg af því að þá hélst ráðningarsamband. Hugsanlega hefði frekar átt að útfæra hlutabótaleiðina þannig í stað uppsagnarleiðarinnar að í staðinn fyrir 25% vinnuframlag gæti fólk farið í 0% en samt haldið vinnunni. Auðvitað veit ég alveg að fólk verður atvinnulaust hér, því miður. Við erum ekki að fara að bjarga öllum störfum. Að sjálfsögðu veit ég það, því miður, og við vitum það öll. En ég vildi bara sjá meira. Eins og með flýtingu framkvæmda; þetta eru 18 milljarðar samkvæmt töflunni. Það er ekki nóg. Við sáum það. Bæði sveitarfélögin og Samtök iðnaðarins bentu á að það er hægt að gera meira á þessu ári. Sveitarfélögin gáfu okkur þennan lista í fjárlaganefndinni. Þau voru með fleiri verkefni sem var hægt að fara í núna. Ég veit að mörg verkefnin krefjast aðdraganda og undirbúnings o.s.frv. en þessi flýting framkvæmda var bara í aðgerðapakka eitt. Það kom ekkert í aðgerðapakka tvö og ekkert í aðgerðapakka þrjú. Ég skildi það aldrei. Ég hélt alltaf að hér kæmi meira í verklegar framkvæmdir í næstu pökkum en þeir einkennast fyrst og fremst af hlutabótaleiðinni og uppsagnarleiðinni. Ég held að nýsköpunariðnaðurinn vilji svo sannarlega þiggja meira og við munum að það eina sem umsagnir sem fá hæstu einkunn hjá Tækniþróunarsjóði vantar er fjármagn þannig að við höfum nú þegar verkefni sem hægt er að styrkja, verkefni sem uppfylla kröfur sjóðsins. (Forseti hringir.) Það eina sem vantar er aukið fjármagn og það þarf ekki að tala (Forseti hringir.) við marga listamenn sem benda á það að þeir myndu svo sannarlega þiggja meiri innspýtingu í Kvikmyndasjóð, (Forseti hringir.) endurgreiðslu kvikmyndagerðar eða fjölgun á listamannalaununum.