150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[12:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn á umfang aðgerðanna sem hv. þingmaður vék að og sagði að lægi í kringum 2%. Í Peningamálum Seðlabankans, sem kom út fyrir nokkrum dögum, er farið ágætlega yfir þetta og þar er dregið saman að umfangið sé metið á tæplega 352 milljarða eða sem samsvarar 11,9% af vergri landsframleiðslu síðasta árs og sé eingöngu horft til aðgerða sem fela í sér áhrif á afkomu ríkissjóðs samsvari umfangið um 4,2% af landsframleiðslu. Eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson kom inn á er það umfang meira en í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Það er mjög mikilvægt, ef við viljum ræða um umfangið, að við setjum það í samhengi sem er rétt og samanburðarhæft við önnur lönd.

Svo vil ég sömuleiðis segja, af því að hv. þingmaður hefur talað fyrir því að við ráðum í opinber störf sem einhvers konar efnahagslegt viðbragð og vísað til þess að í alþjóðlegum ritum á sviði hagfræði og efnahagsmála hafi m.a. verið hvatt til þess, að ég held að gera verði dálítið skýran greinarmun þegar menn eru að hvetja til þess að ríkissjóður auki umsvif sín. Það erum við að gera og tölurnar eru til vitnis um, sem ég var að lesa hér upp úr Peningamálum, þetta eru engar smátölur, við förum yfir 10% af landsframleiðslu síðasta árs í sérstökum aðgerðum núna. Það er eitt. Að það þurfi að birtast í ráðningu opinberra starfsmanna er dálítið annað. Þar verður auðvitað að fara fram eðlilegt mat á því hvort það sé og hafi verið viðvarandi skortur á viðkomandi sviðum. (Forseti hringir.) Svo þegar upp er staðið verða slík plön að hafa eitthvert samhengi við það hvernig við ætlum á endanum að standa undir þeim launakostnaði.