150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[12:21]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga. Um aðgerðir ríkisstjórnarinnar almennt má í sjálfu sér hafa ýmis orð og sýnist þar sitt hverjum, hvort það sem gert hefur verið sé nóg eða á réttum stöðum. Ég ætla hins vegar ekki að fara í almenna umræðu um það heldur ætla ég að einbeita mér meira að því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Í því eru svo sem ekki margar nýjungar. Fyrst og fremst er verið að leita eftir heimildum til útgjalda sem þegar hafa verið ákveðin. Það sem er þó e.t.v. nýtt og ber að nefna er aðstoð við kvikmyndagerð. Það veldur hins vegar vonbrigðum að þar eru menn einungis eiginlega að staðfesta þegar lofuð útgjöld. Þar stíga menn ekki fram og segja: Við viljum gera enn betur. Við viljum fá fleiri verkefni til landsins og við erum tilbúin til að veita þeim fyrirgreiðslu. Nú er búið að lofa því að Ísland verði opnað fyrir ferðamönnum og kvikmyndagerðarfólki 15. júní. Það er eftir hálfan mánuð. Að vísu er að koma í ljós að á því kunna að vera einhver tormerki að við það verði hægt að standa. En við skulum gera ráð fyrir því að ríkisstjórnin ráði við að efna loforð sitt sem hún hefur gefið landsmönnum og til umheimsins um það að hingað geti fólk komið áhyggjulaust. Þá væri ágætt að þeir sem hingað koma, t.d. til þess að vinna að kvikmyndalistinni, væru sannfærðir um að þeir nytu fyrirgreiðslu frá ríkinu til þess að gera það. Þau skref eru ekki stigin hér í þessum fjárauka. Vissulega má segja að á þessu ári fjáraukanna sé hægt að bæta úr því síðar, en framsýni er að mínu mati ágætt að hafa í þessu eins og svo mörgu öðru.

Þá vil ég aðeins tæpa á hlutabótaleiðinni og ætla svo sem ekki að ræða hana per se. Nú er verið að staðfesta þau útgjöld sem af henni hljótast en ég hjó eftir því í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að hann var aðeins að opna smá rifu inn á það hvað ætti að taka við að henni lokinni og var m.a. að tala um að þau fyrirtæki sem myndu ráða fólk af atvinnuleysisskrá myndu hugsanlega verða áfram að hluta á hlutabótaleið og gera þannig ráðningar auðveldari fyrir fyrirtækin. Ég vil benda á leið sem ég held að sé miklu vænlegri og hafi almennari og betri áhrif á atvinnulífið. Hún er einfaldlega sú að gera það ódýrara fyrir fyrirtækin að ráða til sín starfsfólk. Hér var lögð fram tillaga af Viðreisn um það að vegna fólks sem yrði ráðið af atvinnuleysisskrá þyrfti ekki að greiða nema 25% af tryggingagjaldi í tiltekinn tíma. Ég held að það sé miklu skynsamlegri leið að fara og vil benda hæstv. ráðherra á að íhuga hvort það kynni ekki að vera skynsamlegra í þeim efnum.

Ég vil í öðru lagi nefna heimildarákvæðin sem varða sjóð sem annað frumvarp er hér um til meðferðar og síðan nýtt frumvarp sem varðar breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Þá er ég annars vegar að tala um Kríu sem er væntanlegur sjóður sem hefur það hlutverk að fjárfesta í öðrum sjóðum sem svo aftur fjárfesta í fyrirtækjum, í nýsköpun og gengur undir nafninu Kría og mun væntanlega heita Kría. Hitt atriðið er það að samhliða þessu frumvarpi er á sama tíma lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Þar er verið að gera ráð fyrir því að formgera það sem stundum hefur verið kallað Stuðnings Kría og lýtur að því að ríkið veiti fjármagn til móts við fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem hafa átt erfitt uppdráttar varðandi fjármögnun á síðustu mánuðum og tengt við Covid.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru nokkur vonbrigði og mér finnst þær einmitt sýna að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki alveg nógu framsýnir og djarfir þegar nýsköpunin á í hlut. Við áttum um þetta talsverðar umræður á sínum tíma í fyrri lagabreytingum sem vörðuðu mjög góðar breytingar sem gerðar voru á umhverfi nýsköpunar, fjármagn sem var veitt þar og breytingar á skattendurgreiðslukerfum. Allt var það til bóta en það var sama marki brennt og þar hefði mátt ganga lengra í fjárhæðum en það sem verst var var að menn vildu hafa þessar aðgerðir tímabundnar. Það er mjög vont og það er ekki gott veganesti í neinni nýsköpun eða í neinum stuðningsaðgerðum til nýsköpunar að takmarka þær til tveggja ára. Það er einhver hugsanavilla í því að það sé sköpun á góðu umhverfi fyrir nýsköpun til framtíðar. Það er bara ekki svoleiðis. Þess vegna veldur það mér miklum vonbrigðum að sjá 3. gr. þessa fjárauka, sem fjallar um breytingar á heimildarákvæði. Við erum nú þegar með heimildarákvæði um að leggja í þennan nýja Kríusjóð 1.150 milljónir. Nú er lögð fram tillaga um að skera það á þessu ári, að sjálfsögðu, niður í 650 milljónir og taka afganginn og setja 500 milljónir í hið nýja úrræði sem Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er ætlað að sinna. Ég held að þetta sé kolröng aðferðafræði.

Í fyrsta lagi, og langar mig þá aftur að vitna til orða hæstv. fjármálaráðherra: Ja, það er nú þannig með svona fjárheimildir að ef þær nýtast ekki þá falla þær bara niður. Sé það rétt mat að sjóðurinn Kría geti ekki nýtt nema 650 milljónir til að fjárfesta í öðrum sjóðum þá falla þær heimildir niður á þessu ári, ekki satt? Þess vegna sé ég ekki af hverju menn fara þessa leið. Ég bara skil það ekki. Þaðan af síður skil ég að menn ætli að veita 500 millj. kr. heimild til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til að veita svokölluð stuðningslán á móti fjárfestum. Raunverulega sér maður strax í frumvarpinu um Nýsköpunarsjóðinn og þessa heimild til hans að menn gera hreinlega ráð fyrir því að þetta séu ekki nægir peningar og setja upp sérstakan mekanisma um það að reynist eftirspurn sprota- og nýsköpunarfyrirtækja eftir mótframlagslánum meiri en sú fjárheimild sem er til grundvallar aðgerðinni muni lánsfjárhæð hvers mótframlagsláns lækka hlutfallslega. Menn eru beinlínis að teikna það inn að þeir viti að þetta sé ekki nóg. Af hverju gera menn þetta svona? Hvaða framsýni er þetta? Af hverju gera menn ekki eins og tillaga frá Viðreisn gerir ráð fyrir og setja heimild fyrir myndarlegu framlagi? Þá er hægt að sinna þeim brýnu þörfum sem er tilgangur þessa alls, að halda lífvænlegum nýsköpunarfyrirtækjum á lífi. Þá er hægt að bjarga þeim. Þess vegna á að hafa heimildina rúma og vona að ástandið sé ekki eins slæmt og það er. Þá kemur bara í ljós að menn þurfa ekki nema þessar 500 milljónir, sem ég leyfi mér að fullyrða að er ekki nægilegt.

Þetta er líka vont fyrir fyrirtækin og fjárfestana sem ætla sér að fara af stað og nýta sér þetta úrræði. Þeir leggja af stað með áætlanir sínar og segja: Gott og vel, nú kem ég með 100 milljónir hérna og ég veit að reglurnar segja að fyrirtækið fái 100 millj. kr. láni á móti frá ríkinu. Þetta er búið að setja í lög. Þetta er flott og fínt. En síðan gerist það að allt of margir sækja um lánin. Fjárfestirinn er búinn að ákveða að setja 100 milljónir í fyrirtækið. Ríkið getur komið með 50 milljónir. Forsendur fyrir fjármögnuninni í heild eru brostnar. Þetta er ekki kerfi sem er boðlegt að bjóða upp á. Það er ekki boðlegt. Ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og trúi því og treysti að hv. fjárlaganefnd skoði það mjög ítarlega og geri nauðsynlegar breytingar á því.

Ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt að leggja mikla áherslu á öll þessi atriði sem varða nýsköpun, rannsóknir og þróun til framtíðar er augljós. Hún er okkur öllum augljós og ég held að okkur greini í sjálfu sér ekkert á um það að við búum við of einhæft efnahagslíf og við verðum að breyta því. Við bara verðum að gera það. Það tekur langan tíma og þess vegna má ekki fara þá leið að gera of lítið og til of skamms tíma. Það er rangt að gera það. Það er einfaldlega rangt og mun ekki verða til þess að við getum breytt uppbyggingu atvinnulífsins með þeim hætti sem nauðsynlegt er og við erum í hjarta okkar, held ég, öll sammála um.

Að því sögðu, og ég held að það hafi komið fram áður í þessari stuttu ræðu, þá ber vissulega að fagna þeim skrefum sem hafa verið stigin. Þau eru mjög góð og ég gagnrýni það ekki, þau eru bara ekki nógu stór og það er ekki búið að ákveða hvert á að fara með þessi mál. Menn eru ekki búnir að gera það upp við sig, sem ég held að stjórnvöld verði að gera og við sem samfélag verðum að gera. Við ætlum að breyta atvinnulífi okkar varanlega og við verðum að hverfa frá því að vera í þjóðfélagi með atvinnulíf sem verður svona háð einni grein. Við megum ekki leyfa okkur að gera ekki allt sem við getum til að koma í veg fyrir það. Það endar alltaf með því að upp koma áföll innan einstakra greina. Það gerir það alltaf. Það er óhjákvæmilegt. Þess vegna er þetta svo slæmt og við höfum allt of dýrkeypta reynslu af því hvað það þýðir fyrir efnahagslíf okkar og hvaða dýfur íslenskt samfélag tekur. Við verðum að hætta að sætta okkur við að þetta séu bara örlög okkar af því að við séum svo sérstök úti í hafi og við höfum fisk og túrista og svona verði það að vera. Við megum það ekki. Mér er svolítið niðri fyrir því að ég er verð fyrir svo miklum vonbrigðum með að fólk skuli ekki vilja skilja þetta. En þetta er 1. umr. og hv. fjárlaganefnd á eftir að fara yfir málið. Ég trúi því og treysti að þar tökum við a.m.k. þennan bút sem hér er og lögum hann þannig að hann komi að því gagni sem hann verður að koma.