150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[12:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er í sjálfu sér algerlega á því að það sé nauðsynlegt að hreinsa upp það sem búið er að lofa og ákveða og það er auðvitað mjög gott að gera. Ég get tekið undir að það er óvissa og öll erum við að reyna að eyða óvissunni og auðvitað má segja að fjárlaganefnd geti gefið út í nefndarálitinu að hún telji að það verði að tryggja að við getum sinnt þeim verkefnum sem hingað muni koma og veittar verði fjárheimildir fyrir því.

En fyrst hv. þingmaður nefndi óvissuna um hvað myndi gerast á næstu mánuðum og misserum þá tek ég alveg undir það. Það er kannski ekki viðfangsefni fjárlaganefndar, en það er auðvitað viðfangsefni stjórnmálanna að reyna að draga úr allri þessari óvissu. Það hefur komið hér fram og ég held að ég hafi minnst á það í mínum ræðustúf að sjálfsagt er það gert af góðum hug að reyna að draga úr þessari óvissu með því að gefa fyrirheit eða sýn á það hvað muni gerast á næstunni. Eitt slíkt fyrirheit er að opna landið eftir hálfan mánuð. Það er því dapurlegt, eins og ég sagði, að mér sýnist að það muni verða miklum vandkvæðum bundið. Eigum við að segja kvikmyndagerðarfólki í útlöndum sem var búið að átta sig á því að Ísland yrði opið 15. júní og það kæmi bara hingað nokkrum dögum seinna, (Forseti hringir.) að það komist ekki fyrr en 15. júlí eða 15. ágúst eða eitthvað? Það er ekki gott. (Forseti hringir.) En það er kannski ekki viðfangsefni hv. fjárlaganefndar.