150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[13:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hjó eftir einu í ræðu hans sem mig langar aðeins að eiga orðastað við hann um. Hann ræddi um misnotkun á hlutabótaleiðinni, sem ég er svo sannarlega sammála um að verði að fyrirbyggja algerlega núna. Við erum að horfa upp á stöndug fyrirtæki sem hafa nýtt sér þessa leið en hafa ekki þurft á því að halda og þarna á að sjálfsögðu að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar. Við höfum gert það en því miður hafa stjórnendur sumra þessara fyrirtækja ekki sýnt þá ábyrgð sem þeim ber í þessum efnum.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um eitt atriði, það kemur reyndar ekki alveg beint inn á þessa umræðu hér en þó þannig að hann minntist á að misnotkun væri í almannatryggingakerfinu og fólk væri að svindla sér inn á örorkubætur, ég held að hann hafi orðað það þannig.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann fyrir sér svona lagað og þekkir hann hvernig eftirliti er háttað í öðrum löndum þegar menn eru að svíkja út bætur í svokölluðum bótasvikum? Nú spurði ég ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins sérstaklega að þessu fyrir nokkru síðan í fjárlaganefnd, með hvaða hætti eftirlit væri gegn bótasvikum af hálfu Tryggingastofnunar, hvort það væri sérstök skrifstofa þar starfandi sem hefði í skoðun bótasvik. Svarið var á þann veg að svo væri ekki en það væri símsvari og þar væri hægt að tilkynna bótasvik.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Þekkir hann hvernig þetta er t.d. á Norðurlöndunum? Nú eru verulegir fjármunir í húfi og fullkomlega óeðlilegt að fólk geti svindlað sér inn á almannatryggingakerfið, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega. Þekkir hann hvernig þetta er? Hvernig sér hann fyrir sér eftirliti með þessu háttað?