150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[13:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég spyr líka vegna þess að ég held að prósentutalan sé svolítið á reiki, hún sé á bilinu 1–5%, þ.e. bótasvik í tryggingakerfinu. Þessa tölu hef ég heyrt frá þeim sem til þekkja. Ef fram heldur sem horfir fara eftir tíu ár u.þ.b. 90 milljarðar í þetta kerfi. Ef við horfum á 1% þá eru það 9 milljarðar í bótasvikum, sem er náttúrlega gríðarlega há upphæð.

Mig langar að fá álit hv. þingmanns á einu. Nú veit ég að í Sviss voru samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir ekki svo löngu lög sem varða eftirlit gegn bótasvikum. Það er með þeim hætti að starfræktir eru sérstakir rannsóknarlögreglumenn sem eingöngu fókusera á bótasvik. Auk þess þekki ég t.d. frá Bretlandi að þar er eftirlitið töluvert mikið.

Eftir því sem ég hef aflað mér upplýsinga hér þá virðist eftirlitið vera mjög lítið. Ég minni á það að ef einhverjir svíkja út úr almannatryggingakerfinu, eins og örorkubætur, bitnar það auðvitað á þeim sem virkilega þurfa á bótunum að halda. Það er því til mikils að vinna að ná tökum á þessu.

Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér? Telur hann vænlegt að við myndum setja á laggirnar einhvers konar kerfi, eins og t.d. er í Sviss, þar sem yrði bara reglulegt eftirlit með þessu? Menn þyrftu náttúrlega að sæta því með einhverjum hætti. Það væri fróðlegt að fá skoðun hans á þessu máli?