150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[13:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Jú, svikin. Ef við tökum 1–5%, maður hefur aldrei séð neitt, þetta eru tölur gripnar úr lofti, kannski úr öðrum kerfum, segjum í Sviss. Ég efast um að þetta sé svo mikið hér. En bara 1%, við skulum segja að það sé nóg.

En hverjir eru það sem eru að svíkja? Við skulum aðeins horfa á það. Þá segi ég: Svik eru ekki alveg það sama og svik. Svik geta verið neyðarréttur. Ég tel það vera neyðarrétt — segjum hjón sem lenda bæði í örorku. Hvað skeður? Ef einstaklingur í hjónabandi verður fyrir örorku þá fær hann ekki heimilisuppbót. Ef tveir einstaklingar lenda í því að verða öryrkjar fær hvorugur þeirra heimilisuppbót. En ef einstaklingur býr einn fær hann heimilisuppbót. Ef þú ert ógiftur og ert öryrki þá máttu ekki gifta þig, þá verður þér refsað. En síðan er líka það að þeir einstaklingar sem lenda í því — segjum að viðkomandi sé öryrki og áttar sig á því að það verður auðveldara fyrir hann að lifa með því að skilja, þá fær hann heimilisuppbót, auknar barnabætur og getur kannski lifað af. Hann sér fram á að með þessum gjörningum þurfi hann ekki að standa í biðröð eftir mat. Ég myndi segja að þetta væri neyðarréttur viðkomandi til að reyna að sjá fyrir fjölskyldu sinni og reyna að bjarga sér. En þetta er kannski kallað svik í bótakerfinu. En þetta kalla ég svik stjórnarinnar, að sjá ekki til þess að þessir einstaklingar geti lifað með sæmd í kerfinu og þurfi ekki að grípa til þessara neyðarúrræða.