150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[13:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar um frumvarp til fjáraukalaga og ég verð að viðurkenna að ég átti svolítið erfitt með að átta mig á því hvert hv. þingmaður væri að fara með tilliti til afstöðu hans til þeirra aðgerða sem hér er verið að leggja til þar sem langstærstu útgjaldaliðirnir snúa að því að tryggja afkomu fólks sem misst hefur lífsviðurværi sitt vegna Covid-veirufaraldursins, þ.e. með hlutabótaleiðinni þar sem verið er að tryggja fólki framfærslu svo það haldi ráðningarsambandi við fyrirtæki og hafi þar með vinnu til framtíðar, og svo að greiða laun í uppsagnarfresti, sem er til þess að fyrirtæki geti komið stöndugri út úr ástandinu og haldið áfram að sjá fólki fyrir vinnu.

Hv. þingmaður talaði um eins og hér væri mikill fjáraustur. Mig langar að spyrja hv. þingmann hreint út hvort hann sé mótfallinn aðgerðunum. Það er svo sem rétt að það er hægt að misnota allar leiðir, en hv. þingmaður tók það hins vegar sjálfur fram að það væri mjög mikill minni hluti sem gerði það. Mig langar bara að fá það fram: Telur þingmaðurinn ekki að hér séu mikilvægar aðgerðir til þess að tryggja að fólk sem misst hefur framfærslu sína haldi henni áfram í gegnum þessa erfiðleika sem við vonum vonandi öll að séu tímabundnir?