150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[13:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég verð að segja eins og er að ég talaði um fjáraustur á þeim forsendum að mér finnst vera nóg af peningum til að setja í ákveðna hluti en ekki aðra. Það er bara það sem ég átti við. Ég var ekki að meina að ég sæi eftir peningum til þeirra sem eru í hlutabótavinnu eða á uppsagnarfresti, að þeir fái þann pening til að lifa af. Það er langt því frá.

En ég geri líka athugasemdir við að það hefur gleymst að tryggja eftirlitið, sem er kannski skiljanlegt á þeim hraða sem unnið verið hefur við að koma úrræðunum fram. Mér finnst sorglegt þegar Vinnumálastofnun, eða einhver sem á að hafa eftirlit, segist ætla að sinna eftirliti í haust, þeir vilji fá lengri tíma og ætli bara að gera það einhvern tíma í framtíðinni. Þá getur það verið orðið of seint, þá verða peningarnir farnir, jafnvel úr landi.

Við verðum alltaf að byrja einhvers staðar. Ég setti þetta í samhengi við þær ströngu kröfur sem gerðar eru í almannatryggingakerfinu og eftirlitsheimildir þar. Það stingur svolítið í stúf hér að ekki skuli hafa verið gengið almennilega frá eftirlitsheimildum strax. Við erum t.d. búin að samþykkja lög um uppljóstrara. Segjum að við séum með stórfyrirtæki þar sem eitthvað skrýtið er í gangi. Einhver uppgötvar það og finnst verið að sóa almannafé. Mér finnst mjög skrýtið að hann geti ekki látið vita af því strax á einfaldan hátt. Það virðist hins vegar vera hægt í almannatryggingakerfinu og ætti þess vegna að vera hægt í öðrum kerfum til að sinna eftirliti.