150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[14:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tel mikilvægt að við höfum komið því hér á hreint að hv. þingmaður telur aðgerðirnar mikilvægar þótt hann komi á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi það hvernig eftirlitinu er háttað. Mig langar að taka það fram hvað það varðar að auðvitað hafa verið skrifuð inn í frumvörpin skilyrði sem fyrirtækin þurfa að lúta sem nýta sér þær leiðir sem stjórnvöld setja fjármagn í. Það hlýtur þá að koma í ljós með tíð og tíma m.a. hvort fyrirtækin hafi ekki hlítt þeim skilyrðum sem þar eru sett. Það þarf auðvitað að fylgjast með því að úrræðið sé nýtt á réttan hátt. Ég er hjartanlega sammála því og tel reyndar að verið sé að vanda eins og framast er hægt til verka varðandi það að farið verði að þeim leikreglum sem hér er verið að setja.

Hv. þingmanni hefur orðið tíðrætt um kjör, bæði örorkulífeyrisþega og eldri borgara, og ég tek undir með honum að þar þarf að bæta kjörin. Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti bent mér á eitthvert dæmi um að stjórnvöld hafi beinlínis farið inn í kerfin og gert það að verkum að öryrkjar eða aðrir sem treysta á almannatryggingakerfið beri minna úr býtum í núverandi ástandi.