150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[14:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrirspurnina. Já, ég veit um dæmi. Því miður hafa komið upp ýmis dæmi hjá Tryggingastofnun. Ég veit um eitt dæmi þar sem rakin var IP-tala erlendis og til eru einstaka dæmi sem eru ljót. Ég er ekki með þau öll en ég veit því miður um dæmi. Einnig eru dæmi um að verið sé að hrella öryrkja sem eru erlendis að sækja læknisþjónustu erlendis eða annað. Þeir fá greiðslurnar seinna og aðstaða þeirra hefur gjörbreyst vegna gengisins. Við vitum hve litlu má muna. 10–15% gengishækkun er 10–15% lækkun á bótum þeirra, þannig að það er mjög slæmt að staðan skuli vera sú.

Í sambandi við eftirlitsheimildir og annað, hv. þm. Birgir Þórarinsson talaði áðan um 1–5% svik í kerfinu. Ef við heimfærum það á kerfið sem við höfum búið til hérna og ef reiknað er með, eins og talað var um, að allar þessar björgunaraðgerðir kosti 300 milljarða, þá erum við að tala um kannski 3–15 milljarða svik. Það eru gífurlegar fjárhæðir og miklu meira fé en ég gæti nokkurn tíma ímyndað mér að svikið yrði út í almannatryggingakerfinu. Núna nýta félög á Möltu, í skattaskjólum, sér úrræðin og við vitum um nokkur dæmi þar sem verið er að misnota kerfið og sumir hafa meira að segja farið og greitt til baka. Vítin eru til að varast þau og þess vegna eigum við að meðhöndla alla jafnt og koma í veg fyrir öll svik. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki mörg tilvik við eigum að geta komið í veg fyrir þau.