150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[14:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi til fjáraukalaga erum við komin með þriðja fjáraukann í þeim aðgerðum sem hugsaðar hafa verið til þess að reyna að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag vegna veirufaraldursins. Við í Miðflokknum höfum stutt allar tillögur ríkisstjórnarinnar sem miða að því að lágmarka tjónið og vonum að sjálfsögðu að þær gagnist sem best. En við höfum auk þess verið með viðbótartillögur, breytingartillögur við fjáraukana. Við höfum auglýst tillögur okkar í fjölmiðlum til að reyna að ná eyrum stjórnvalda og við höfum sent forsætisráðherra tölvupóst með tillögum okkar þannig að við höfum lagt okkur fram um að koma þessu að eins og mögulegt er. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki lagt nægilega vel við hlustir að okkar mati og hér hefur komið alloft fram að ríkisstjórnarflokkarnir hafa fellt allar tillögur stjórnarandstöðunnar. Það er að sjálfsögðu dapurlegt í ljósi þess að óskað hefur verið eftir samráði af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í þessari tillögugerð. Við erum öll saman í þeim erfiðleikum sem við erum að reyna að komast út úr, sem eru tímabundnir og vonandi sjáum við fyrir endann á þeim sem fyrst.

Ég vil byrja á því að staldra aðeins við á bls. 10 í frumvarpinu. Verið er að framlengja hlutabótaleiðina og þetta frumvarp er í raun og veru bara aðgerðir sem búið er að kynna. Það er ekkert nýtt í því, ef svo má segja, nema kannski hvað varðar kvikmyndaframleiðsluna. Það er ágætismál og var reyndar búið að ræða áður. Það sem ég vildi koma inn á varðandi hlutabótaleiðina eru þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til að fyrirtæki geti nýtt hana fyrir launþega sína. Hér er um mjög mikla fjármuni að ræða. Það eru um 34 milljarðar kr. sem eiga að fara í þetta. Verið er að framlengja þessa leið sem reynst hefur ágætlega, ég skal taka undir það, og hún er að sjálfsögðu mikilvæg. En við þurfum hins vegar að koma í veg fyrir að hún verði misnotuð. Það hefur aðeins verið rætt hér.

Það er mikill skilningur fyrir því í samfélaginu að verja störfin. Við í Miðflokknum leggjum ríka áherslu á það. Að sama skapi er engin þolinmæði í samfélaginu fyrir því að þetta úrræði sé misnotað. Þetta eru miklir fjármunir skattgreiðenda. Það er líka athyglisvert að komið hefur fram af hálfu Vinnumálastofnunar að stofnunin hefur fengið ábendingar um a.m.k. þrenns konar misnotkun á hlutabótaleiðinni. Það vekur líka athygli að ríkið hefur ekki sett neina fjármuni í eftirlit með þessari misnotkun. Það er svolítið sérstakt í ljósi þess hversu gríðarlega miklir peningar eru í spilunum. Minna má á að í Svíþjóð vinna u.þ.b. 100 skattsérfræðingar við eftirlit með hlutabótaleiðinni sem þar er í gangi. Það er full þörf á að við setjum einhverja fjármuni í að hafa eftirlit með þessu. Ég held að það sé alveg ljóst að álagið á Vinnumálastofnun er gríðarlegt og hún getur engan veginn sinnt þessu, a.m.k. eins og staðan er núna.

Annað vandamál í þessu er að fólk á kannski erfitt með að stíga fram og segja frá því að verið sé að misnota þetta úrræði, einfaldlega vegna atvinnuástandsins í samfélaginu, og margir eru uggandi um sinn hag og óttast jafnvel að vera sagt upp. Fólk kærir sig ekki um að koma fram og það er ótrúlega mikill fjöldi í samfélaginu sem er uggandi um afkomu sína. Við skulum ekki gleyma því. Auðvitað er alltaf verið að segja að þetta ástand eigi sér ekki hliðstæðu o.s.frv., en raunveruleikinn er sá að aldrei hefur jafn mikið atvinnuleysi orðið í landinu á svo skömmum tíma, svo hratt. Það er því mjög mikilvægt að reyna að verja störf eins og kostur er og þetta er ein af þeim leiðum. Við þurfum bara að tryggja það algerlega að hún verði ekki misnotuð og ég minni á að úrræðinu er ætlað að bjarga fyrirtækjum sem róa lífróður sinn vegna faraldursins og þeirra afleiðinga sem hann hefur haft á rekstur fyrirtækja. Þessu úrræði er ekki ætlað að koma fyrirtækjum, sem ekki lenda í teljandi tekjutapi vegna veirufaraldursins, betur út úr þessu tímabundna tímabili niðursveiflu. Það er rétt að halda því til haga.

Það er stefnan að herða skilyrðin og ég held að það sé nauðsynlegt í þessu samhengi að nefndin fari nákvæmlega í saumana á því hvað þarf að laga og það verði engar eyður í þeim efnum. En svo skal ég taka undir það að vissu marki sem hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrr í umræðunni, að skilyrðin mega heldur ekki vera það ströng að þau verði til þess að erfitt verði að fara þessa leið. Það verður að finna hinn gullna meðalveg, eins og hæstv. ráðherra nefndi og ég vil taka undir það.

Það sem ég sakna í þessum fjárauka, sem er ekki í honum, er að við þurfum að beina sjónum að þeim sem eru nú þegar búnir að missa vinnuna og reyna að finna úrræði fyrir þá, eins og t.d. að beina þeim í nám og kanna hvort ekki sé rétt að skoða einhvers konar ívilnanir til þess að fólk fari í nám í þeim greinum þar sem er skortur á fólki. Við getum þá notað stöðuna sem við erum í í dag til þess að búa í haginn fyrir framtíðina. Það vantar mjög mikið nýliðun í mikilvægar stéttir, eins og hjúkrunarfræðinga, og það þyrfti að búa til hvata til þess að fólk fari í nám í þessum greinum. Það mun að sjálfsögðu kosta einhverja peninga, en ávinningurinn er hins vegar mikill þegar upp er staðið.

Þegar við ræddum aðgerðapakka tvö fagnaði ég sérstaklega tímabundnum störfum fyrir námsmenn 18 ára og eldri í samstarfi við sveitarfélögin. Það var mjög gott verkefni. Við í Miðflokknum hefðum hins vegar viljað útvíkka það til einkafyrirtækjanna, að þau gætu ráðið til sín fólk í sumar og fram á haust með stuðningi ríkisins. Síðan hef ég mikið talað mikið fyrir því að við eflum náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur sem búnir eru að vera atvinnulausir í einhvern tíma, voru jafnvel atvinnulausir fyrir veirufaraldurinn. Það má ekki gleyma þeim þannig að þeir geti notið forgangs í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa til þess að fjölga störfum. Þar þarf að bæta í og ég hefði viljað sjá í þessum fjárauka auknar fjárheimildir til þess að útvíkka úrræðið til þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir og hafa verið það í jafnvel einhvern tíma. Þeir gætu komið inn í einhvers konar tímabundin úrræði á vegum stjórnvalda í samvinnu við sveitarfélögin.

Það er annað sem ég sakna í þessu frumvarpi, herra forseti. Það er ekkert minnst á sveitarfélögin. Komið hefur fram að of lítið samráð hafi verið haft við sveitarfélögin. Í þessu mikla tekjufalli og útgjaldaaukningu sem þau hafa orðið fyrir hefur að mjög litlu leyti verið rætt við sveitarfélögin hvað varðar úrræði af hálfu hins opinbera. Það er ljóst að sum sveitarfélög eru bara svo illa stödd, atvinnuleysi er það mikið, eins og t.d. í Mýrdalshreppi, Skaftárhreppi og á Suðurnesjum að þau, sérstaklega hluti sveitarfélaga á Suðurlandi, eiga jafnvel erfitt með að halda uppi lögbundinni þjónustu. Og þegar svo er komið verður ríkissjóður að grípa inn í. Við höfum talað fyrir því í Miðflokknum að það þurfi sértækar aðgerðir til sveitarfélaganna vegna þess að þau koma illa út úr veirufaraldrinum efnahagslega, eins og allir aðrir. Það er að vísu jákvætt sem nú er þegar komið í gegn, að sveitarfélögin geti nýtt sér endurgreiðslufyrirkomulag á virðisaukaskatti vegna framkvæmda, en ég held að íhuga þurfi alvarlega hvort koma eigi með bein framlög til sveitarfélaganna. Ég held að það sé orðinn veruleiki hjá einhverju Norðurlandanna.

Síðan hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga orðið fyrir verulegu tekjutapi sem þarf einhvern veginn að mæta og við megum ekki gleyma því að um 80% af útsvarsstofni sveitarfélaganna eru laun. Fulltrúar Reykjavíkurborgar komu hér á fyrri stigum á fund fjárlaganefndar og lögðu ríka áherslu á að aðkoma ríkissjóðs væri nauðsynleg. Atvinnuleysi í Reykjavík var um 18% í apríl þannig að þetta snertir mikinn fjölda fólks og margir eru jafnvel komnir á þá leið að fá fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Það er stór hópur sem er að koma þar inn, sem hefur mikil útgjöld í för með sér fyrir sveitarfélögin. Ég hefði því viljað sjá aðgerðir fyrir sveitarfélögin í þessum fjárauka hér.

Ég hefði auk þess viljað meiri aðgerðir fyrir Suðurnesin. Það kom sérstakur stuðningur upp á 250 milljónir og að sjálfsögðu var það gott mál en dugar engan veginn til. Ég spurði einmitt hv. þingmann og formann fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, út í það í fjárauka tvö, að mig minnir, hvort hann teldi að þetta dygði til að mæta því mikla atvinnuleysi sem er á Suðurnesjum. Það er rúmlega 25% á Suðurnesjum og stefnir í hátt í 30% í Reykjanesbæ, sem eru bara hamfaratölur, ef svo má að orði komast. Hv. þingmaður gat þess að hann teldi að þetta dygði skammt í því mikla atvinnuleysi sem þar er og ég er alveg sammála honum í því. Það er alveg ljóst að við verðum að mæta þeim sveitarfélögum sem búa við svo gríðarlegt atvinnuleysi og því fólki sem á þar í hlut. Nú hefur verið boðaður fjárauki í haust og tíminn fram að því er dýrmætur. Þess vegna hefði ég talið að hér hefði átt að koma eitthvað til þessara sveitarfélaga. Það er miður að svo er ekki.

Ég vil að endingu minna á að það er nauðsynlegt í þessu öllu saman að huga að því hvort ekki sé hægt að hafa meiri skilvirkni í aðgerðum stjórnarinnar. Gallinn á þessum aðgerðum hefur verið sá að dregist hefur úr hófi að koma þessu í framkvæmd. Það skiptir nefnilega máli vegna þess að tíminn sem líður er dýrmætur og á þeim tíma gætu einhver fyrirtæki hreinlega lagt upp laupana. Ég nefni brúarlánin sem dæmi sem hafa tekið allt of langan tíma frá því að þau voru samþykkt og þar til að þau eru komin fram og frágengin í fjármálastofnunum þannig að hægt sé að sækja um þau. Nú erum við búin að samþykkja stuðningslán sem skipta meðalstór fyrirtæki verulega miklu máli og má ekki dragast með sama hætti að koma þeim í framkvæmd. Það er nokkuð sem verður að skoða.

Ég legg áherslu á það í nefndarvinnunni, eins og ég nefndi í upphafi, að farið verði yfir skilyrðin og tryggt að þetta úrræði verði ekki misnotað. Það er mjög ánægjulegt að Ríkisendurskoðun hafi gert frumkvæðisathugun á þessari leið. Hún mun væntanlega tilkynna hver sú niðurstaða hafi verið í skýrslu, á morgun, ef mig minnir rétt. Ég fagna því mjög að Ríkisendurskoðun skyldi hafa haft frumkvæði að því að skoða hlutabótaleiðina vegna þess að það eru gríðarlegir fjármunir í spilunum, eins og ég nefndi, og nauðsynlegt að fá það inn í nefndarvinnuna sem fram undan er hvaða augum eftirlitsstofnun okkar, Ríkisendurskoðun, lítur hana.