150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki tekið eftir því í breytingartillögum eða í frumvarpinu að það séu einhverjar skorður gegn því að setja uppsafnað skattalegt tap á móti þessum tekjum, það getur þess vegna verið frá hruni. En nóg um það. Ég veit að við hv. þingmaður erum ekki sammála um að útiloka þá sem nýta sér skattaskjól frá þessum stuðningi. Ég lít þannig á að þeir aðilar sem hafa sett upp miklar flækjur til þess að komast hjá því að greiða í ríkissjóð séu sjálfir búnir að segja sig frá ríkisstuðningi. En hvað vill hv. þingmaður segja um kröfur um að fyrirtæki, sem segir upp tíu manns eða fleiri, verði að skila inn loftslagsbókhaldi og áætlun um losun gróðurhúsalofttegunda næstu fimm árin? Þetta er ekki íþyngjandi. Þetta er einfalt mál að gera og þægilegar leiðbeiningar um, en þarna myndu stjórnvöld setja loftslagsmálin svolítið á dagskrá í þessari Covid-umferð.