150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að það skuli hafa verið tekið tillit til athugasemda sem komu frá Airport Associates varðandi mat á tekjusamdrættinum og við hvaða tímabil er miðað í þeim efnum, að miða þá við 1. apríl í staðinn fyrir 1. mars, það er mjög mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem þar var uppi, sérstaklega varðandi samkeppnisaðstöðu milli fyrirtækja.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í það þegar starfsmanni er sagt upp. Nú var Alþýðusamband Íslands með áhyggjur af því að tekin verði af öll tvímæli um að atvinnurekanda beri að ráða starfsmanninn að nýju í sambærilegt starf ef starfsemin fer í gang að nýju og að jafnframt verði almennt miðað við starfsaldur þannig að starfsmenn með lengstan starfsaldur fái fyrst ráðningu og svo koll af kolli. Er eitthvað hugsað fyrir þessu? Mig langaði að fá álit hv. þingmanns á því og auk þess langar mig aðeins að víkja að því að ASÍ leggur áherslu á að kveðið sé á um að ekki séu vanskil varðandi opinber gjöld en hins vegar ekkert fjallað um launatengdu gjöldin. Gæti hv. þingmaður farið yfir það hvort tekið hafi verið tillit til þessara athugasemda af hálfu Alþýðusambandsins? Auk þess minnist Alþýðusambandið á að það eru ekki skilyrði um hámark launa sem atvinnurekandi greiðir sér og öðrum starfsmönnum eins og er hvað hlutabótaleiðina varðar, hvort ekki eigi að vera samræmi þarna á milli. Þetta eru athugasemdir sem Alþýðusambandið hefur komið á framfæri og vil ég gjarnan heyra frá hv. þingmanni hvernig tekið var í þær.