150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og geri mér grein fyrir því að auðvitað skiptir máli að þetta úrræði verði afgreitt hratt og vel en við verðum þá að passa að það séu engin mistök á leiðinni sem geta orðið okkur erfið og jafnvel dýrkeypt. En ég vildi aðeins, í seinna andsvari, koma inn á áhyggjur BHM af launamönnum sem eru í fæðingarorlofi, hvort það hafi verið skoðað sérstaklega. Eins og segir í umsögninni:

„Berist starfsmanni uppsögn í fæðingarorlofi, í samræmi við lög og reglur þar um, og hafi atvinnurekandi kosið að nýta úrræði þessa frumvarps, leggur BHM til að það verði í höndum starfsmannsins að ákveða hvort hann fresti töku fæðingarorlofs á meðan uppsagnarfresti stendur. BHM telur það nauðsynlegt að skýrt verði tekið á því í lögum þessum hvernig fer með starfsmenn í fæðingar- eða foreldraorlofi.“

Ég þekki dæmi þess að fyrirtæki sem hafa verið að nýta sér þessa leið hafi hreinlega skikkað þær konur sem hafa verið í fæðingarorlofi til að fresta því til að hægt sé að nýta þessa uppsagnarleið. Gæti hv. þingmaður komið inn á þetta? Ég tel nokkuð mikilvægt að fá skýr svör við þessu.