150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit við frumvarp til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Þetta er að mörgu leyti áhugavert mál. Það kemur ekki fram í tómarúmi, það kemur fram við aðstæður sem eru eiginlega ótrúlegar og kannski allt öðruvísi en við hefðum getað ímyndað okkur. Það kemur fram við þær aðstæður að stefnir í eitt versta samdráttarskeið í Íslandssögunni hvað hagkerfið varðar. Þær aðgerðir sem þegar hafa verið ákveðnar hér á þingi og af ríkisstjórn nema að umfangi einhvers staðar í kringum 350 milljörðum, tæplega 12% af vergri landsframleiðslu. Þetta er umtalsvert högg. Nú leiðrétta þingmenn mig áreiðanlega, ef ég man ekki rétt, en mig minnir að árið sem við fórum hvað verst út úr hruninu hafi hallinn á ríkissjóði numið ríflega 210 milljörðum á verðlagi þess árs þannig að hér er alveg gríðarlega mikið áfall. Beinar greiðslur úr ríkissjóði, alla vega miðað við það sem þegar hefur verið ákveðið eða er í bígerð að ákveða í fjáraukanum, eru um eða yfir 100 milljarða kr., en að auki verður ríkissjóður fyrir tekjufalli. Þetta er samhengið hvað varðar ríkissjóð en úti í samfélaginu þekkja þingmenn gríðarlega aukningu á atvinnuleysi og mikla nýtingu á hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar sem skiptir miklu máli. Það er í öllu þessu samhengi sem við erum að ræða þetta.

Nokkuð hefur verið rætt hér í dag um muninn á þeim tveimur frumvörpum sem eru til umfjöllunar í þinginu nánast á sama tíma, þ.e. annars vegar á því frumvarpi sem við ræðum hér og hins vegar hinu svokallaða hlutabótafrumvarpi. Þar er verið að ræða framlengingu á hlutastarfaleiðinni sem er þó gerð með þeim hætti að þar er um nýtt úrræði að ræða. Það er sú ákvörðun sem hefur verið tekin í sambandi við það mál. Við skulum átta okkur á því að þegar farið var út í hlutabótaleiðina þá voru í raun ekki gerð nein skilyrði önnur en þau að samdráttur hefði orðið í rekstri, ef ég man rétt, og menn gætu sýnt fram á að hann væri tengdur efnahagsáhrifum kórónuveirunnar. Nú eru sett ítarlegri skilmerki en þó þannig að hægt er að komast inn í það úrræði þó að fyrirtæki hafi ekki orðið fyrir nema 25% tekjufalli.

Að þessu leyti til er uppsagnarfrumvarpið allt öðruvísi. Við erum að tala um að lágmarki 75% tekjufall til að fyrirtæki geti komist inn í það úrræði. Þar á er grundvallarmunur. Því er villandi a.m.k. að tala um að obbinn af fyrirtækjum muni nota þessi úrræði jöfnum höndum. Auðvitað verður það ekki þannig. Við skulum rétt vona að stór hluti þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt hlutabótaleiðina sé ekki kominn í þá stöðu að þau séu með 75% tekjufall og muni þess vegna ekki geta nýtt sér þetta úrræði. En við skulum ekki fara í neinar grafgötur með það að auðvitað mun verða vaxandi atvinnuleysi á Íslandi. Það munu verða fyrirtæki sem fara á hausinn og það munu verða fyrirtæki sem lenda í umtalsverðum erfiðleikum og það munu verða fyrirtæki sem lenda í umtalsverðum samdrætti. Aðgerðirnar sem verið er að grípa til eru hugsaðar til að reyna að tryggja að það verði einhvers konar ráð til að halda lífi í fyrirtækjunum, halda ráðningarsambandi við starfsfólkið og tryggja rétt þessa launafólks.

Það hefur aðeins verið rætt í dag um tengslin við atvinnuleysisbætur, með hvaða hætti þurfi að taka á þeim vanda sem augljóslega skapast þegar mjög stór hluti landsmanna fer á atvinnuleysisbætur. Við höfum rætt það hér áður, og ég hef raunar sagt það áður, að við munum að öllum líkindum þurfa að bregðast við því þegar líður fram á sumar og við sjáum betur hversu stór hluti vinnumarkaðarins velur að fara í uppsagnarleið og hversu stór hluti velur annaðhvort að halda sér í hlutabótum eða hreinlega leggja upp laupana, eins og sum munu neyðast til að gera. Sú ákvörðun verður alltaf að vera viðkomandi fyrirtækis og vonandi munu fyrirtækin í einhverjum mæli taka þær ákvarðanir með starfsfólki sínu. Þar kemur hlutabótaleiðin mjög sterkt inn, skulum við segja. Þá er ráðningarsambandi haldið.

Það hefur aðeins verið rætt hér í dag um þann ómöguleika sem felst í því að við það að fara af 25% hlutabótaleið yfir á uppsagnarfrest, samkvæmt frumvarpinu sem við ræðum hér í dag, þá geti fyrirtæki allt í einu gert kröfu um 100% starfsframlag. Þetta var nokkuð rætt á fundum nefndarinnar og var m.a. rætt við fulltrúa launþegahreyfingarinnar í landinu, fulltrúa launamanna. Niðurstaðan er sú að innan þeirra vébanda er a.m.k. ekki sterkur vilji til að taka á þessum ómöguleika, þ.e. þá erum við í raun að ganga á réttindi launafólks. Þau beina því frekar til fyrirtækjanna, sem ég held að sé ekki slæm leið í sjálfu sér, að starfsmenn megi þá nýta tímann í uppsagnarfresti, séu ekki verkefni til staðar í fyrirtækinu, til að afla sér til að mynda endurmenntunar eða leita sér nýrra starfa ef þau eru í boði. Þetta skiptir máli. Það er alveg rétt, eins og hefur komið fram hjá þingmönnum, kannski aðallega við 1. umr., að það er sérkennileg staða að fyrirtæki sem hefur jafnvel ekki nein verkefni og fer þessa leið, „situr kannski allt í einu uppi með“ að þurfa að finna verkefni handa fjölda starfsmanna. Auðvitað mega þessi fyrirtæki ná samkomulagi við sína starfsmenn um að þeir geti ekki mætt í vinnu en haldi samt launum sínum. En þá væri gagnlegt ef menn notuðu þann tíma til endurmenntunar eða leituðu annarra leiða til að auðvelda sér að fá starf að nýju.

Ég ætla kannski ekki að hafa mörg orð um nefndarálitið, það var ágætlega farið yfir það hér áðan. Ég tek þó fram að ég tek undir þær breytingar sem nefndin gerir. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa nefnt mikilvægi þeirrar breytingar sem gerð er á 14. gr., til að mynda. Hún er mikilvæg, sérstaklega í því ljósi að stuðningurinn sem við erum hér að tala um er stuðningur sem gengur beint til fyrirtækisins. Þetta er stuðningur sem fer inn á bækur fyrirtækisins, þ.e. beinn fjárstuðningur við fyrirtækið. Þess vegna er mikilvægt að upplýsingar um hverjir njóta þess stuðnings séu aðgengilegar og þess vegna er lögð skylda á skattinn að upplýsa um þær. Breytingarnar á 8. gr. sem var ágæt fyrir, þ.e. skyldan um tekjufærslu, er að mínu viti ágæt. Það er verið að stytta þann tíma sem fyrirtæki hafa til að tekjufæra upphæðina, úr sex árum í fjögur, en það breytir ekki því að eftir sem áður þurfa fyrirtæki að tekjufæra alla upphæðina sem þau fá greidda samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Ég held ég láti þetta duga en ítreka það sem ég sagði hér í upphafi: Við erum að taka ákvarðanir á mjög sérstökum tímum. Það hefur gengið vel hingað til að vinna sig út úr heilsufarslegum vanda þessa faraldurs. Við erum að byrja að sjá ágætan árangur af þeim úrræðum sem hafa tekið á efnahagslegu þáttunum. Ég geri frekar ráð fyrir því að við þurfum á næstu mánuðum og misserum að taka frekari ákvarðanir í þá veru en ítreka, eins og ég hef margsagt hér í ræðustól áður, að við erum að vinna í ástandi sem er mjög breytilegt frá degi til dags og frá mánuði til mánaðar og ráðstafanir og ákvarðanir munu halda áfram að markast af því.